Aðstaða fyrir nemendur og skóla

Aðstaða fyrir nám og skóla

Aðstaða Lýðskólans á Flateyri er á nokkrum stöðum í bænum.

Aðalhúsnæði skólans er
á 2. hæð í gamla kaupfélaginu sem stendur við Hafnarstræti 11. Þar er vítt til veggja og útsýni til allra átta. Í húsnæðinu er frábær aðstaða til kennslu ásamt því sem þar er frábær aðstaða til þess að vinna og koma saman innan og utan skólatíma. Skrifstofa skólans er þarna einnig til húsa. Kennsla á brautinni Hugmyndir, heimurinn og þú fer aðallega fram í aðalhúsnæði skólans. 

Kennsla á brautinni Hafið, fjöllin og þú fer aðallega fram í Samkomuhúsi Flateyrar þegar okkur dettur í hug að vera innandyra. Í Samkomuhúsinu er fínasta aðstaða og nóg pláss svo að við getum dreift úr okkur og unnið bæði sitjandi, standandi og á hreyfingu.

Nemendur hafa aðgang að skólahúsnæði og félagsaðstöðu utan skólatíma hvort sem er fyrir verkefnavinnu, viðburði á vegum skólans, samveru eða fyrir annað sem tengist félagslífi.

Að síðustu má nefna að í tengslum við verknám og vettvangsferðir hefur fjöldi fyrirtækja og einstaklinga á Flateyri og í Önundarfirði boðið fram aðstöðu fyrir skólann, viðburði og félagsstarf. Bátar til sjósóknar, fiskvinnsla, eldhús, fjós og tún eru dæmi um slíka aðstöðu sem við komum til með að þurfa á að halda við kennslu og æfingar og þegar svo ber undir má gera ráð fyrir því að við munum koma saman á Kaffi sól, Bryggjukaffi, pítsuukvöldi á Gunnu kaffi og á Vagninum þegar vel liggur á okkur. Svo má ekki gleyma því að náttúran í Önundarfirði og nágrenni, hafið, fjöllin og landið verður kennslustofa okkar þegar svo ber undir.