Fallegt bréf frá fyrrverandi nemanda

Á dögunum fengum við ákaflega fallegt bréf frá fyrrverandi nemanda okkar Agli Breka Scheving. Þetta bréf veitti okkur mikla gleði og með hans leyfi viljum við deila þessum hjartnæmum orðum með ykkur:
 
„Ég útskrifaðist úr Lýðskólanum á Flateyri núna í ágúst síðastliðinn, en útskriftinni var frestað frá maí alveg fram í ágúst vegna covid-19 faraldursins. Ég sótti um Lýðskólan frekar lost, ég vissi ekkert hvað ég væri að fara út í en ég vissi samt að þetta væri betra en að sitja heima og gera ekki neitt.
 
Þegar ég útskrifast er ég nýr maður og það sést alveg greinilega. Lýðskólinn gerði mjög margt fyrir mig og er ég skólanum afar þakklátur. Ég lærði miklu meira en ég hélt ég myndi gera, tók risa skref í þroska og skólinn lagði mikla áherslu á sjálfstæð vinnubrögð sem hafa svo sannarlega hjálpað mér í kjölfar útskriftarinnar.
 
Eftir sumarið sótti ég um í Borgarholtsskóla á leiklistarbraut sem mér leist svo vel á. Komst þar inn og hef verið að stunda þar nám í allt haust. Brautin er alveg fyrir mig, ég fann metnaðinn aftur og drifkraftinn sem ég hafði misst áður en ég fór í Lýðflat. Mér hefur gengið svo vel hingað til og ætla mér auðvitað að halda því áfram.
 
Áhugamálin mín eftir Lýðflat, vöknuðu aftur til lífs og ég hef verið að gera tónlist, sækja um prufur í leiklist, horfa á leiksýningar á netinu og byrjað að elska aftur hreyfingu, stunda allskonar hreyfingu alveg frá líkamsrækt yfir í göngur.
 
Það er bara svo margt gott á einn eða annan hátt sem skólinn gerði fyrir mig og mig langar að hvetja sem flesta sem vilja taka stórt skref, sem vilja upplifa einstaka tíma og eignast frábærar minningar. Sem vilja kynnast æðislegu fólki, kennurum, nemendum og íbúum Flateyrar, að sækja um í Lýðskólann á Flateyri.. Ég sá svo sannarlega ekki eftir því.
 
Á góðum sem og slæmum tímum verður þetta alltaf ein besta upplifun lífs míns og ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið það tækifæri að vera partur af skólanum, sem á svo sannarlega eftir að þróast og blómstra á betri veg í gegnum tíðina.
 
Elsku Flateyri takk fyrir mig, ég sakna ykkar allra, sakna bæjarins, sakna útsýnisins, sakna samverustundanna okkar allra og ég lofa að koma og kíkja oft í heimsókn.
 
Knús,
 
Egill Breki Scheving
Flateyringur