Fjallamennska 2

Fjallamennska 2

Á námskeiðinu verður byggt á þeim grunni sem farið er yfir í námskeiðinu Fjallamennska 1 sem kennt er á haustönn 2019. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að gera nemendur hæfa til að stunda fjallamennsku á Íslandi við erfiðar aðstæður að vetrarlagi. Farið verður yfir það hvernig skal bera sig að í fjallalendi að vetrarlagi og sérstaklega verður farið yfir notkun ísaxa, mannbrodda og annars öryggisbúnaðar í vetrarfjallamennsku. Einnig verður farið yfir almenn snjóflóðafræði, mat á snjóflóðahættu, fyrstu hjálp og félagabjörgun úr snjóflóðum.

Stór hluti námskeiðsins fer fram utandyra þar sem kennari leiðir nemendur í gegnum æfingar sem miða að ofangreindu markmiði. Mikil áhersla verður lögð á styttri og lengri ferðir og að nemendur stundi af krafti útivist, hvort sem er á fjallaskíðum, þrúgum eða á göngu í snjó. Farið verður í lengri og styttri ferðir með kennara og aðstoðarmönnum.

Ragnar Þór Þrastarson, fjallaleiðsögumaður, kennari og MBA nemandi

Ragnar Þór hefur yfir 15 ár reynslu af göngu- og jöklaleiðsögumennsku. Hann bjó um tíma í Kanada þar sem hann lagði stund á nám í Ævintýraferðamennsku (Adventure tourism) ásamt því sem hann hefur lokið námi í kennsluréttindum. Ragnar leggur áherslu á að tryggja gæði og öryggi í leiðsögn lítilla ferðahópa.

Ragnar Þór vinnur sem leiðsögumaður fyrir Asgard Beyond þar sem hann stýrir jafnframt sölumálum.

https://asgardbeyond.com/

Jón Heiðar Andrésson, fjallaleiðsögumaður

Jón Heiðar hefur yfir 20 ára reynslu af fjallaleiðsögumennsku. Hann vinnur að því hörðum höndum að fá viðurkenningu sem IFMGA fjallaleiðsögumaður og býst við því að ljúka þjálfun vegna þess á næstu 2 árum. Jón Heiðar er ástríðufullur fjallaleiðsögumaður sem brennur fyrir því að fjallaleiðsögumenn í íslenskri ferðaþjónustu fylgi ýtrustu stöðlum og starfsvenjum.

Jón Heiðar vinnur sem fjallaleiðsögumaður og þjálfari leiðsögumenna hjá Asgard beyond og er hann jafnframt stofnandi fyrirtækisins.

https://asgardbeyond.com/