Fjallamennska 1

Fjallamennska 1

Á námskeiðinu fá nemendur kennslu í öllum grunnatriðum fjallamennsku á Íslandi allan ársins hring. Markmiðið er að gera nemendur hæfari til að stunda fjallamennsku og útivist af öryggi og á eigin vegum. Farið er yfir ferðahegðun, ferða- og útivistarbúnað, mataræði á ferðalögum, veðurfræði, leiðaval og rötun. Áhersla er á örugga ferðamennsku með áherslu á góðan undirbúning. Farið verður yfir helstu hættur og nemendum kennd undirstöðuatriði í lestri á landslagi, sem og umhverfisvitund. Farið verður yfir það hvernig skal bera sig að í fjalllendi og sérstaklega er farið yfir grunnatriði í línuvinnu, notkun brodda, ísaxa og trygginga og annars öryggisbúnaðar sem nauðsynlegur er í fjallamennsku.

Stór hluti námskeiðsins fer fram utandyra þar sem kennari leiðir nemendur í gegnum æfingar sem miða að ofangreindu markmiði ásamt því sem nemendur fara í lengri og styttri ferðir með kennara og aðstoðarmönnum.

Bjartur Týr Ólafsson
fjallaleiðsögumaður       

Bjartur byrjaði að vinna sem fjalla- og jöklaleiðsögumaður árið 2015. Hann er Vestmannaeyingur og byrjaði snemma að klifra um alla eyju eftir eggjum og lundum. Honum finnst svo gaman að klifra að hann klifraði alla leiðina upp á Mont Blanc þegar hann var 18 ára.

Björgvin Hilmarsson
fjallaleiðsögumaður

Björgvin hefur lengi starfað við leiðsögn og kennslu á fjöllum og jöklum Íslands og Grænlands, lengst af fyrir Íslenska Fjallaleiðsögumenn. Kletta- og ísklifur, fjallahjólreiðar, skíði og almenn útivist á hug hans allan. Björgvin ákvað að flytjast til Vestfjarða sumarið 2019 og telur hvergi betra að vera.

Björgvin starfar einnig sem ljósmyndari og má sjá myndir og fylgjast með ævintýrum hans á Instagram: https://instagram.com/retro_outdoors/