Gagnlegar upplýsingar

Við tökum öllum opnum örmum og bjóðum börn og maka nemenda sérstaklega velkomin. Á Flateyri er bæði grunn- og leikskóli fyrir íbúa Flateyrar. Menntaskólinn á Ísafirði er í 20 mínútna akstursfjarlægð og Ísafjarðabær sér um ferðir fyrir menntaskólanema til og frá Flateyri í samræmi við skólatíma.

Ef þú hyggst koma til Flateyrar með maka og/eða börn er ágætt að hafa í huga að nokkra daga á önn má gera ráð fyrir að nemendur séu 1-3 nætur í burtu í vettvangs- eða ævintýraferð. Það getur hvort sem er verið á skóladögum eða yfir helgi en tekur allt mið af aðstæðum hverju sinni.

Flateyri er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá Ísafirði. Til Ísafjarðar má fljúga frá Reykjavík (tengiflug við aðra áfangastaði Air Iceland Connect). Nemendur eru aðstoðaðir við að koma sér frá flugvelli á Ísafirði til Flateyrar í upphafi og lok annar og í kringum lengri frí.

Frá Reykjavík til Flateyrar eru 471 km ef ekin er hefðbundin leið. Ef nemendur eru á bílum munu þeir verða hvattir til að samnýta ferðir til og frá Reykjavíkur eða annarra staða á leiðinni. Við munum skipuleggja það í samstarfi við verðandi nemendur þegar nær dregur.

Á Facebook má finna síðuna „Samferða Ísafjörður“ þar sem oft er hægt að næla sér í far til og frá Ísafirði og taka þátt í bensínkostnaði. Einnig er hægt að notast við síðuna samferda.is í því skyni að fá eða bjóða öðrum far í bíl á leið til eða frá Ísafirði.

Í vistarverum sem nemendum stendur til boða er að finna allan grunnbúnað sem þarf til heimilishalds, búsáhöld, húsgögn og sængur og kodda. Nemendur koma sjálfir með sængurfatnað, daglegan fatnað og annað það sem þeir velja að koma með til daglegra, persónulegra nota.

Gera má ráð fyrir að nemendur vinni í smærri og stærri hópum að verkefnum tengdum námskeiðum auk þess sem hluti af námi fer fram innandyra þar sem gera má ráð fyrir einhverri tölvuvinnslu og upplýsingaleit. Gert er ráð fyrir að nemendur noti sínar eigin fartölvur í náminu.

Eftirfarandi upplýsingar eiga eingöngu við um nemendur á brautinni Hafið, fjöllin og þú:

Þar sem mikill hluti af námi á brautinni Hafið, fjöllin og þú fer fram utan hefðbundinnar kennslustofu, gjarnan úti í náttúrunni og í öllum veðrum, er gert ráð fyrir að nemendur komi sjálfir með þann útivistarfatnað og -skó sem nauðsynlegur er:

Fatnaður sem þarf

 • Tvö sett af ullarnærfötum (síðbuxur og síðerma bolir) eða öðrum hlýjum undirfatnaði
 • Þykk og hlý ullarpeysa, flíspeysa eða samsvarandi
 • Húfa, vettlingar, hálsklútar/treflar
 • Vind- og regnheldur utanyfirfatnaður (jakki og buxur)
 • Vatnsheldir og góðir gönguskór og stígvél
 • Lítill og góður bakpoka fyrir styttri gönguferðir

Fyrir þá nemendur sem ekki eiga slíkan fatnað eða útbúnað er bent á að samningur hafa verið gerður við útivistarbúðir þar sem þú getur keypt það sem þig vantar á góðu verði:

Fjallakofinn býður nemendum og starfsfólki Lýðháskólans sérkjör á útivistarfatnaði og -búnaði frá 1. ágúst og fram í miðjan september. Eftir það er 10% afsláttur af öllum vörum fyrir nemendur.

https://fjallakofinn.is/

H verslun býður nemendum og starfsfólki Lýðháskólans á Flateyri 30% afslátt af Houdini útivistarfatnaði í ágúst áður en skólaárið hefst.

http://hverslun.is/vefverslun/h-verslun-nike/houdini/

HOUDINI er sænskt hágæða útivistarmerki sem var stofnað árið 1993 og framleiðir gæða fatnað fyrir útivist, hreyfingu og lífstíl. Vörur Houdini eru hannaðar til að auðvelda fólki að upplifa meira, afkasta meiru og skemmta sér betur án þess að raska náttúrunni um of.

Nánari upplýsingar um vörur Houdini má nálgast hér:

https://www.houdinisportswear.com/en/

Ef nemendur eiga, er gott að hafa með:

 • Skíði/fjallaskíði/gönguskíði/snjóþrúgur
 • Bakpoka fyrir lengri gönguferðir
 • Höfuðljós, GPS tæki, snjóflóðaöryggisgræjur (ýlar, stöng, skófla)
 • Útilegubúnað (tjald, svefnpoka, legudýnu, eldunargræjur, mataráhöld)
 • Veiðistöng
 • Myndavél sem hafa má með í ferðir
 • Annað þann búnað sem nemendur telja sig þurfa til útivistar

Fyrir þá nemendur sem ekki eiga slíkan útbúnað mun skólinn útvega allan þann sérhæfða útbúnað sem þörf er á fyrir námskeið og þær ferðir sem farnar eru á vegum skólans.