Hljóð og hljóðvinnsla

Hljóð og skapandi hljóðvinna

Markmið námskeiðsins er að beina athygli nemenda að hljóðheiminum. Með því að leggja meiri áherslu á hljóð í umhverfinu getur skilningur og næmni til þess að rannsaka og tjá hugmyndir aukist.

Kennsla felst í vettvangsferðum þar sem lögð er áhersla á að skynja umhverfið; stuðla að samþættingu skynjunar og skynsemi með virkri þáttöku og snertingu við umhverfið. Fjallað verður fræðilega um hljóð og eiginleika þess og munu nemendur öðlast grunnþekkingu í hljóðvinnslu. 

Verkefnin miða að því að örva hæfileika nemenda til listsköpunar þar sem hljóð og tónar eru efniviðurinn og verða ýmsar skapandi leiðir reyndar í þeim efnum. Heimur ímyndunaraflsins á sér engin takmörk og verður leitast við að gefa nemendum frelsi til þess að finna hugmyndum sínum farveg með því að vinna úr tónum, hljóðum, þögnum; einir eða í samstarfi við aðra nemendur. Nemendur skrá í og vinna út frá hljóðdagbók á námskeiði. Til að undirbúa nemendur og opna augu þeirra fyrir möguleikum skráningar í dagbókina er farið í könnunarferðir um hið innra og ytra landslag og skynjun örvuð með því að beina athygli að mismunandi fyrirbærum í umhverfinu.

Þóranna Dögg Björnsdóttir, hljóð-og myndlistarkona og listkennari.

Þóranna lauk burtfararprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík og er með BA próf frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Art Science. Þóranna hefur lokið M.Art.Ed frá Listkennsludeild Listháskóla Íslands.