Kennsluhættir

Innibraut10 copy

Kennsluhættir

Við Lýðskólann á Flateyri kynnist fólk og þroskast.

Þú aflar þér reynslu og nýrrar færni með því einfaldlega að prófa. Og gera. Með því að vera með öðrum. Innsýn, reynsla og færni verður til með sjálfsskoðun, samvinnu og forvitni.

Námskeið við Lýðskólann á Flateyri byggja á samtali og gagnkvæmu námi á milli nemenda og kennara. Megináhersla er á að uppgötva og styrkja þá einstöku hæfileika sem hver og einn býr yfir í umhverfi sem er fullt af áskorunum en um leið ríkt af stuðningi og samvinnu.

Við byggjum námskeið þannig upp að nemendur fá fróðleik, kynningu á efni, fræðslu og upplýsingar á prentuðu og rafrænu formi. Segja má að þetta séu hefðbundnar kennslustundir með þeirri undantekningu þó að mikil áhersla er lögð á leit að upplýsingum, samtöl við heimafólk og umræður í tímum í stað hefðbundinna fyrirlestra kennara. Miklum hluta af kennslutíma verja nemendur utan hefðbundinnar kennslustofu, með kennara og öðrum nemendum, þar sem þekking nemenda á viðfangsefninu er dýpkuð í gegnum verklega reynslu, vettvangsferðir og æfingar. Og með samveru.

Skipulag og uppbygging námsins er með þeim hætti að reglulega takast nemendur á við þemaverkefni sem byggja á því að nýta þann auð sem finna má í sögu, menningu og samfélagi Flateyrar við Önundarfjörð og gefa til baka í formi auðgunar á samfélagi.

Öll námskeið við Lýðskólann á Flateyri eru kennd í stuttum en hnitmiðuðum lotum. Með stuttum námslotum er auðveldara fyrir nemendur og kennara að einbeita sér að hverju námskeiði fyrir sig og kynna sér viðfangsefnin til hlítar. Einnig gefst aukið svigrúm fyrir kennara og nemendur til að staldra við áhugaverð viðfangsefni eftir þörfum hverju sinni.

Þetta fyrirkomulag skapar jafnframt tækifæri til að fá reynslumikið fólk og fagaðila víðsvegar af landinu og utan úr hinum stóra heimi til að kenna námskeið við skólann.

Gert er ráð fyrir að nemendur dvelji við Lýðskólann í eitt skólaár. Til greina kemur einnig að vera aðeins eina önn, annað hvort haust- eða vorönn. Við umsókn um skólavist tekur þú fram hversu lengi þú hyggst vera með okkur.

Athugið að Lýðskólinn á Flateyri áskilur sér rétt til að breyta skipulagi og innihaldi námskeiða í samræmi við breyttar aðstæður.