Kveikjur og hugmyndafræði

Kveikjur og hugmyndafræði

Kynntar verða hugmyndir um sjálfbærni og fjölmenningu. Lögð verður áhersla á það hlutverk sem nemendahópurinn getur gegnt í lýðræðissamfélagi þar sem sjálfbærni og fjölmenning er höfð að leiðarljósi. Rætt verður hvernig þau geta tekið þátt í samfélaginu á Flateyri á bæði skapandi og gagnrýnin hátt.

Skapandi hugsun byggir á samvirkni rökhugsunar og innsæis og er bæði heildræn og greinandi. Skapandi hugsun getur átt stóran þátt í að marka stefnu í eigin lífi og starfi. Hún getur einnig hjálpað okkur að líta lengra en reynsla okkar nær og að bregðast á sveigjanlegan hátt við hinum ýmsu aðstæðum.

Gagnrýnin hugsun merkir að við séum upplýst, að við getum séð hluti frá fleiri en einu sjónarhorni, að við veltum því fyrir okkur af hverju ákvarðanir eru teknar og hvenær þær koma. Gagnrýnin hugsun gerir einstaklingum kleift að taka upplýstar ákvarðanir. Þátttakendur velta fyrir sér hver staðan er í samfélaginu og hverju þeir vilja breyta.
Lögð verður áhersla á að hver nemandi velti fyrir sér eigin væntingum, vonum og hindrunum. Þeir velta fyrir sér hvernig hægt er að yfirstíga það sem þeir óttast. Unnið verður út frá hugmyndafræði Paulo Freire og Augusto Boal.

Ásthildur Jónsdóttir, myndlistarmaður, kennari og sýningarstjóri

Ásthildur hefur gráðuna Doktor of Arts frá Lapplandsháskóla Finlandi og PhD frá Háskóla Íslands. Í doktorsrannsókn sinni skoðaði hún möguleika lista í menntun til sjálfbærni. Hún hefur kennt við listkennsludeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2009. Áður kenndi hún í grunnskólum og framhaldsskólum, háskólum, í félagsmiðstöðvum og með fólki á öllum aldri með ólíkan bakgrunn, á Íslandi, í Genf, New York og víðar. Ásthildur hefur gefið út námsefni, þróað námskrár og gefið út barnabók um sjálfbærni bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Sem sýningarstjóri og listamaður hefur hún lagt áherslu á þátttöku og virkni áhorfandans.