Kvikmyndagerð

Kvikmyndagerð

Það líður varla sá dagur að við segjum ekki eða heyrum sögu. Þær geta verið nánast óendanlegar hvað form og lögun varðar.

Á námskeiðinu munum við kynna okkur nokkur mismunandi form frásagna, taka eftir frásögnum í hversdeginum og að endingu prófa okkur áfram með þær sem okkur þykja áhugaverðar.

Hvernig skapar maður spennandi karakter? Á námskeiðinu verður farið í saumana á karaktersköpun og skoðað hvernig persónur og sambönd milli persóna drífa söguna áfram. Í gegnum stutt erindi og verklegar æfingar öðlast nemendur færni í að búa til margslungna, mótsagnakennda og áhugaverða karaktera. Nemendur öðlast færni í að gera eigin örmyndir með sérstakri áherslu á karakterktersköpun. Með frábæran og vel ígrundaðan karakter í höndunum er eftirleikurinn auðveldur.

Margrét og Ragnar kenna þetta námskeið og munu kenna eina viku hvort.
 

Ragnar Bragason 

Ragnar er handritshöfundur, leikskáld og leikstjóri sem hefur skrifað og leikstýrt mörgum af verðlaunuðustu verkum íslands á þessari öld. Meðal höfundaverka hans má nefna Vaktaseríurnar, kvikmyndirnar Börn, Foreldrar og Málmhaus. Ragnar hefur einnig unnið verk fyrir leikhús þ.á.m leikverkið Gullregn sem nýverið varð að kvikmynd.

Margrét Örnólfsdóttir

Margrét er einn afkastamesti handritshöfundur landsins og hefur skrifað handrit að sjónvarpsþáttaröðum á borð við Ófærð 2, Fanga, Stelpurnar, Rétt og Flateyjargátuna, að ógleymdri dans- og söngvamyndinni Regínu þar sem hún samdi líka tónlistina. Hún hefur skrifað barna- og unglingabækur, t.d bókaflokkinn um Aþenu, unnið við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, sem hugmynda- og textasmiður á auglýsingastofu og ýmislegt fleira sem tengist skapandi greinum.

Margrét var hljómborðsleikari í Sykurmolunum á árunum 1988–1992 og hefur samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda- og leikverka.