Leiðarljós og gildi Lýðskólans á Flateyri

Stefnuskrá Lýðskólans á Flateyri

Frelsi - Þekking - Þroski

Lýðskólinn á Flateyri er samfélag nemenda og kennara sem býður fólki tækifæri til að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð skólans eru frelsi, þekking og þroski.

Í Lýðskólanum á Flateyri hefur fólk frelsi til menntunar út frá sínum einstaklingsbundnum forsendum. Því byggir skólinn ekki á prófum, einkunnum eða gráðum, heldur skapar hann nemendum sínum aðstæður og umgjörð til náms og menntunar. Ábyrgð á náminu er nemandans þar sem megináherslan er á að uppgötva og styrkja þá einstöku hæfileika sem hver og einn hefur í umhverfi sem er fullt af áskorunum en um leið ríkt af stuðningi, endurgjöf og samvinnu.

Í Lýðskólanum á Flateyri sækir fólk sér þekkingu, eingöngu þekkingarinnar vegna. Hana öðlast nemendur með því að ræða hluti, prófa og framkvæma. Innsýn, reynsla og færni verður til með sjálfsskoðun, samvinnu, frumkvæði og forvitni. Nemandinn er í miðju skólasamfélagsins og fær stuðning frá kennurum, samnemendum og íbúum Flateyrar. Þannig öðlast hann þekkingu, færni og hæfni með þátttöku í verkefnum sem tengjast umhverfi, atvinnulífi, samfélagi og menningu nærumhverfisins.

Við Lýðskólann á Flateyri mætast himinn og jörð, nútíð og saga, framtíðarsýn, reynsla og staðreyndir. Viðfangsefnin ögra og reyna á getu fólks jafnt andlega sem líkamlega. Í því felst áskorun sem leiðir til umbreytingar. Hér kynnist fólk og þroskast. Við Lýðskólann á Flateyri taka nemendur virkan þátt í að móta nám og skóla og geta haft áhrif á viðfangsefnin hverju sinni. Lögð er áhersla á samveru, sjálfsskoðun, sjálfsrækt og lífsleikni þar sem einstaklingar bera virðingu hver fyrir öðrum ásamt því að bera ábyrgð á sjálfum sér og þátttöku sinni í námi og samfélagi. Í Lýðskólanum á Flateyri lærir fólk að horfa öðruvísi á sjálft sig, samferðamenn og lífið sjálft. Í skólanum ríkir jafnrétti og einstaklingar innan skólasamfélagsins taka virkan þátt í mótun samfélagsins og ráða sínum málum í sameiningu. Forsenda þess er samábyrgð, meðvitund og virkni.

Lýðskólinn á Flateyri vill hafa jákvæð áhrif á umhverfi, samferðafólk og samfélag nær og fjær. Okkur er umhugað um sjálfbærni, samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar og berum virðingu fyrir þörfum annarra um leið og við leyfum sjálfum okkur að njóta okkar. Það er á okkar ábyrgð að samfélagið sem við búum í blómstri. Í lýðskólanum stuðlum við að þróun einstaklingsins og samfélagsins með því að gefa bæði og þiggja.