Leiðsögn og ferðaskipulag

Ferðaskipulag og leiðsögn

Markmiðið er að nemendur fái innsýn í hið fjölbreytta starf leiðsögumannsins á Íslandi og læri um þau atriði sem skipta mestu máli við skipulagningu og leiðsögn ferðamanna af ólíkum uppruna. Áhersla verður lögð á færni í mannlegum samskiptum, upplýsingaöflun og leiðaval mismunandi tegunda ferða. Farið verður yfir atriði í ábyrgri ferðaþjónustu, ferðamálafræði og hvað góður undirbúningur skiptir miklu máli fyrir allt ferlið. Farið verður stuttlega yfir markaðssetningu í ferðaþjónustu, ásamt réttindum og skyldum leiðsögumanna.

Nemendur verða mikið í verkefnum utan kennslustofu og fá að spreyta sig í að skipuleggja og leiðsegja styttri og lengri ferðir.

Rúnar Óli Karlsson
leiðsögumaður

Rúnar er menntaður landfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur stundað útivist og fjallamannesku síðan í skátunum. 

Hann gekk í Hjálparsveit skáta á Ísafirði og öðlaðist mikla reynslu þar og var seinna í undanfarasveit Hjálparveitar skáta í Reykjavík. Hann hefur kennt námskeið fyrir Landsbjörgu eins og fjallamennsku, ísklifur og leit í snjóflóðum. Hann hefur stundað fjallamennsku víða um heim svo sem í Ölpunum, Perú, Grænlandi, Slóveníu, Kanada og Bandaríkjunum.

Rúnar hefur unnið við leiðsögn víða um landið í tuttugu ár og stofnaði Borea Adventures á Ísafirði árið 2006 ásamt öðru góðu fólki og hefur unnið þar síðan. 

Rúnar hefur lokið ýmsum námskeiðum sem tengjast útivist, björgun og fjallamennsku og er með fullgild réttindi í fyrstu hjálp í óbyggðum.

https://www.boreaadventures.com/

Illugi Örvar Sólveigarson
fjallaleiðsögumaður

Illugi hefur starfað sem jökla- og fjallaleiðsögumaður siðan árið 2014. Hann stundar mikla útivist, skíðamennsku, ís- og klettaklifur, kajak og fríköfun. Hann er virkur björgunarsveitarmaður þar sem hann sérhæfir sig í fjalla- og straumvatnsbjörgun og kennir námskeið, m.a. í snjóflóðum og fjallamennsku.

Illugi er sjúkraflutningamaður og með gild réttindi í fyrstu hjálp í óbyggðum. Fyrir utan útivistina hefur hann áhuga á listum og hönnun og er með BA gráðu í arkitektúr.