Lokaverkefni

Lokaverkefni

Á síðasta námskeiði vetrarins vinna nemendur undir handleiðslu kennara að lokaverkefni sem samþættar og dregur saman þá þekkingu og reynslu sem þau hafa öðlast í skólanum. Lögð verður áhersla á að tengja hugmyndir nemenda við miðlun menningar og sjálfbærni.

Nemendur kynnast ólíkum leiðum til þátttöku og samfélagstengdra listaverka með lýðræði að leiðarljósi. Nemendur þróa eigin hugmyndir og finna þeim farveg í samfélaginu.

Nemendur rannsaka ólíkar stofnanir, rými og söfn sem tengja má verkefni þeirra og skoða og ræða ólíkar miðlunarleiðir þeim tengdum sem þeir framkvæma í seinni vikunni.

Verkefnið er unnið einslega eða í hóp með öðrum.

Niðurstaða verkefnisins er haldbær vitnisburður um reynslu nemenda og er eins konar safn verkefna vetrarins.

Ásthildur Jónsdóttir, myndlistarmaður, kennari og sýningarstjóri

Ásthildur hefur gráðuna Doktor of Arts frá Lapplandsháskóla í Finnlandi og PhD frá Háskóla Íslands. Í doktorsrannsókn sinni skoðaði hún möguleika lista í menntun til sjálfbærni. Hún hefur kennt við listkennsludeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2009. Áður kenndi hún í grunnskólum og framhaldsskólum, háskólum, í félagsmiðstöðvum og með fólki á öllum aldri með ólíkan bakgrunn, á Íslandi, í Genf, New York og víðar.

Ásthildur hefur gefið út námsefni, þróað námskrár og gefið út barnabók um sjálfbærni bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Sem sýningarstjóri og listamaður hefur hún lagt áherslu á þátttöku og virkni áhorfandans.