Við Lýðskólann á Flateyri ert þú sem nemandi í miðjunni. Þú færð stuðning frá kennurum, samfélagi nemenda og íbúa þar sem þekking, færni og hæfni nemenda verður til með þátttöku þeirra í verkefnum sem tengjast atvinnulífi, samfélagi og menningu.

Þú þjálfast í virkri og skapandi hugsun í gegnum verkefni sem krefjast samvinnu og ólíkrar reynslu. Skipulag og uppbygging námsins er með þeim hætti að reglulega takast nemendur á við þemaverkefni sem sameina atriði sem teljast til þeirra námskeiða sem kennd verða en tengjast um leið lífi, samfélagi og menningu á staðnum og í samfélagi skólans.

Við lýðskólann lærum við fimm daga vikunnar:

  • en látum þó ekkert tækifæri fram hjá okkur fara til að læra hvert af öðru, samfélaginu, náttúrunni og lífinu allt í kringum okkur

Á skólaárinu tekur þú þátt í fjölda námskeiða:

  • sem sum eru kannski utan þíns áhugasviðs, utan þinnar getu, á mörkum þess sem þú nennir. En í því felst áskorunin, umbreytingin. Þannig ryðjum við hindrunum úr vegi. Með því að taka stökkið

Þú tekur þátt í að móta innihald námskeiða:

  • með því að taka virkan þátt og hlusta á þau sem í kringum þig eru getur þú haft áhrif á viðfangsefnin hverju sinni. Við hverfum gjarnan út af brautinni og nýtum okkur þá staðreynd að hjá lýðskólanum fáum við ekki skróp í kladdann ef við gerum ekki nákvæmlega það sem stundaskráin býður okkur