Svo miklu meira en bara skóli

Lydflat76 copy

Svo miklu meira en bara skóli

Lýðskólinn á Flateyri býður þér tækifæri til að þroskast og læra í nánu samneyti við aðra nemendur og íbúa á Flateyri. Þú kynnist nýjum hliðum á þér og hefur tíma til að átta þig á styrkleikum þínum og reyna þig í aðstæðum og verkefnum sem þér hafði ekki dottið í hug að reyna við.

Í námi þar sem nemendur eru saman 24 tíma á sólarhring, líkt og iðulega er í lýðskóla, eru samtöl og samvera samofin námi og verkefnavinnu sem gefur nemendum færi á að prófa hugmyndir sínar og taka upplýsta ákvörðun um frekara val á námi eða stefnu í lífinu. Þú munt af þessum sökum verða betur í stakk búin/n þegar kemur að starfsvali og starfsþróun.

Dvöl við Lýðskólann á Flateyri snýst um svo miklu meira en bara nám og skóla. Á meðan á dvöl þinni á Flateyri stendur munt þú búa með öðrum nemendum, borða með þeim, læra, þrífa, skemmta þér og vera hluti af samfélagi þar sem allir hafa sömu skyldur og sömu réttindi.

Í hverri viku tökum við frá tíma til að hittast, ræða saman, fræða hvert annað og jafnvel skemmta hvert öðru. Það getur verið í formi umræðna, skipulagðra fyrirlestra, myndasýninga eða jafnvel tónleika. Við erum öll ábyrg fyrir að þetta gerist, sem þýðir að við skiptum með okkur að bera ábyrgð á vikulegri samverustund og því sem á henni gerist.

Auk þess byrjum við hvern dag saman, borðum morgunmat og ræðum þau mál sem upp koma, skipuleggjum okkur og skiptum með okkur þeim verkum sem fyrir liggja.

Við höfum líka skyldur

Í samfélagi skólans höfum við öll okkar skyldur. Við búum með öðrum og þurfum að taka þátt í að hugsa um hýbýli okkar, þrífa og taka til. Það sama á við um skólahúsnæðið. Það er á ábyrgð okkar allra að það sé huggulegt og við skiptum með okkur verkum þegar kemur að því að þrífa, sjá um morgunmat fyrir hópinn, skipuleggja viðburði og skemmtanalíf og annað það sem gerir samfélagið okkar starfshæft og heilnæmt.

Og við höfum gaman

Utan skólatíma má gera ráð fyrir miklu lífi. Að vísu verður það mikið undir okkur sjálfum komið en vel má hugsa sér að við munum stunda saman íþróttir, halda spilakvöld, stunda jóga, hugleiðslu eða slökun saman. Við getum eytt kvöldunum í að elda, spjalla, halda fyrirlestra fyrir hvert annað eða fá til okkar fyrirlesara af svæðinu. Við getum horft á bíómyndir, haldið tónleika, stofnað kór eða stundað handavinnu. Eða hvað eina sem okkur dettur í hug. Svo má ekki gleyma því að í Önundarfirði og nágrenni eru endalausir möguleikar til útiveru og útivistar. Þar ræður öllu viðhorfið « veður er bara hugarfar og spurning um góðan fatnað « !

Í anda lýðskóla er samfélagsþátttaka mikilvægur hluti af gildum Lýðskólans á Flateyri. Rík áhersla er lögð á að nemendur og íbúar nærliggjandi sveitarfélaga vinni í náinni og virkri samvinnu að því að auðga mannlífið með því að efna til viðburða, blása til veislu, stuðla að samveru eða auka við þá þjónustu og afþreyingu sem býðst í hverju bæjarfélagi. Þannig erum við öll ábyrg fyrir því að þær auðlindir sem búa í samfélaginu og þeim nemendum sem það auðga, skili sér til baka í einhverju sem annars hefði ekki orðið til. Slíkt er markmið okkar.