Svo miklu meira en bara skóli

LYDFLAT-TJALDF-7

Svo miklu meira en bara skóli

Lýðskólinn á Flateyri býður þér tækifæri til að þroskast og læra í nánu samstarfi við aðra nemendur og íbúa á Flateyri. Þú kynnist nýjum hliðum á þér og hefur tíma til að átta þig á styrkleikum þínum og reyna þig í aðstæðum og verkefnum sem þér hafði ekki dottið í hug að reyna við.

Í námi þar sem nemendur eru saman 24 tíma á sólarhring, líkt og iðulega er í lýðskóla, eru samtöl og samvera samofin námi og verkefnavinnu sem gefur nemendum færi á að prófa sig áfram í allsskonar og taka upplýsta ákvörðun um frekara val á námi eða stefnu í lífinu.

Dvöl við Lýðskólann á Flateyri snýst um svo miklu meira en bara nám og skóla. Á meðan á dvöl þinni á Flateyri stendur munt þú búa með öðrum nemendum, borða með þeim, læra, þrífa, skemmta þér og vera hluti af samfélagi.

Við byrjum hvern dag saman, borðum morgunmat og ræðum þau mál sem upp koma, skipuleggjum okkur og skiptum með okkur þeim verkum sem fyrir liggja.

Við erum samfélag og tökum þátt í því

Í anda lýðskóla er samfélagsþátttaka mikilvægur hluti af gildum Lýðskólans á Flateyri. Nemendur eru hvattir til að halda viðburði og auka við eða taka þátt í þeirri afþreyingu og þjónustu sem er á Flateyri.