Samstarf og viðburðir

Á þessu námskeiði kynnumst við krafti hópsins, ólíkum hlutverkum innan hans og skoðum okkur sjálf í fjölbreyttum hlutverkum leiðbeinanda og stjórnanda. Að læra á því að gera og upplifa er mikilvægt tæki í allri hópavinnu og í gegnum verkefni og leik er hægt að draga fram mikinn lærdóm. Við skoðum aðferðir upplifunarnáms og ævintýrameðferðar og hvernig við nýtum okkur þær í leik og starfi.

Við undirbúum viðburði í samfélagsviku að hausti og nemendur fá að reyna ferli viðburða- og verkefnastjórnunar, allt frá hugmyndavinnu og þróun yfir í áætlanir, skipulag og samvinnu, fjármögnun, markaðssetningu og eftirfylgni. 

Sara Jónsdóttir, verkefna- og viðburðastjóri

Sara er menntuð í viðskipta- og markaðsfræði. Hún hefur víðtæka reynslu af viðburðastjórn. Hún var stjórnandi HönnunarMars og ráðstefnunnar DesignTalks til fjögurra ára og verkefnastjóri Hönnunarverðlauna Íslands. Hún var er ein af stofnendum íslensku heimildamyndahátíðarinnar Skjaldborgar, starfaði í nokkur ár hjá Jónsson & Le’macks auglýsingastofu við umsjón og gerð markaðsefnis og rak almannatengslastofu fyrir fatahönnuði í Kaupmannahöfn. Sara rekur Vagninn á Flateyri í teymi góðs fólks, hannar stundum bakarí, skrifstofur og bari og svo er hún nýútskrifaður jógakennari.

Sigríður Eyþórsdóttir eða Sassa eins og hún er alltaf kölluð er með BS gráðu í iðjuþjálfun frá Bandaríkjunum og hefur síðustu 25 árin sérhæft sig í ævintýrameðferð og meðferðarvinnu með börnum og unglingum.

Hún starfar sem iðjuþjálfi í Hagaskóla en starfaði lengi á BUGL og á Reykjalundi. Sassa hefur víðtæka reynslu af kennslu og námskeiðshaldi fyrir börn og fullorðna og bjó í þrjú yndisleg ár í Valencia á Spáni.

Í frítíma sínum elskar Sassa að halda matarboð, syngja í kór og dansa með vinkonum sínum og ferðast eins oft og tækifæri gefst.