Siðareglur

Lydflat7 copy

Viðmið og reglur um samskipti og nám

Lýðskólinn á Flateyri er samfélag nemenda, kennara og íbúa á Flateyri og nærsveita. Í slíku samfélagi ber okkur öllum jafnmikil skylda til að taka ábyrgð á gjörðum okkar, orðum og störfum og ekki síst okkur sjálfum. Við berum virðingu hvert fyrir öðru, komum fram hvert við annað af heiðarleika, sanngirni og réttlæti og berum hag samferðamanna okkar ávallt fyrir brjósti um leið og við berum virðingu fyrir sjálfum okkur.

Jafnvel þótt við gerum okkar besta og meinum vel er það nú einu sinni svo að við erum ólík, hugsum á mismunandi vegu og það sem einum finnst í lagi finnst öðrum vera merki um hamfarir. Í því geta siðareglur þrátt fyrir allt komið okkur langt í því að styðja við okkur sem samfélag fólks sem mun þurfa að verja saman töluverðum hluta sólarhringsins þá mánuði sem við búum saman á Flateyri.

Almennar reglur

 • Við stöndum vörð um heiður Lýðskólans og aðhöfumst ekki neitt það sem kynni að vera til þess fallið að rýra álit samfélagsins á skólanum.
 • Við erum jákvætt talsfólk Lýðskólans og erum meðvituð um að við tökum þátt í að móta nýjan skóla.
 • Við sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum og komum fram við hvert annað af tillitssemi, hvort sem um er að ræða í hefðbundnum samskiptum eða rafrænum.
 • Við gætum trúnaðar um persónuleg málefni hvers annars og um trúnaðarmál þriðja aðila. Við gætum fyllstu varúðar hvar og hvenær sem málefni nemenda eða samstarfsfólks eru til umræðu.
 • Við gætum þess að mismuna ekki hvert öðru, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana.
 • Við leggjum okkur fram í samvinnu og látum ekki persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á hana.
 • Við gætum þess að vera málefnaleg og sanngjörn í umsögnum, endurgjöf og ummælum um aðra innan skólans.
 • Við leggjum ekki aðra í einelti og tilkynnum skólayfirvöldum ef við verðum vitni að einhvers konar einelti eða mismunun, ofbeldi eða kynferðislegri áreitni.
 • Við erum virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og lítum á það sem skyldu okkar að miðla upplýsingum sem geta orðið til þess að bæta starf skólans.
 • Við gætum þess að fara vel með fjármuni og aðrar eignir skólans.
 • Reykingar eru ekki leyfðar í húsnæði skólans, hvort sem er í kennsluhúsnæði eða í öðru húsnæði á vegum skólans, s.s. heimavist eða íbúð.
 • Óheimilt er með öllu að neyta, varðveita, dreifa eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna eða hafa tæki til slíkrar neyslu í vörslu sinni í skólahúsnæði, hvort sem er í kennsluhúsnæði eða í húsnæði á vegum skólans, s.s. heimavist eða íbúð sem leigð er af skólanum, á skólalóð, svo og á ferðalögum, samkomum eða öðru sem fram fer á vegum skólans.

Siðareglur nemenda

 • Við ástundum námið af samviskusemi og heiðarleika.
 • Við mætum í skólann á hverjum degi og sýnum þannig samnemendum og kennurum virðingu og áhuga. Ef nemandi sinnir ekki þátttöku og mætingu í skóla þannig að það bitni á vinnu og líðan samnemenda í skólanum er það samasem úrsögn úr skóla.
 • Við sýnum það í orði og verki að við erum þátttakendur í samfélagi nemenda og álítum að við berum ábyrgð á velferð og vellíðan hvert annars.
 • Við sýnum kennurum okkar og samnemendum kurteisi, hlítum sanngjörnum fyrirmælum og sýnum heiðarleika og sanngirni í samskiptum.
 • Við erum þátttakendur í hópastarfi en ekki farþegar og leggjum okkur fram við að okkar framlag í hópastarfi sé til jafns við framlag annarra í hópnum.
 • Við vinnum öll okkar verk innan skólans af heiðarleika og heilum hug og stuðlum að því með virkum hætti að aðrir geri slíkt hið sama.

Siðareglur kennara

 • Við leggjum okkur fram um að vera hluti af samfélagi nemenda og íbúa á Flateyri og tökum þátt í viðburðum og félagsstarfi skólans og þorpsins á meðan á dvöl okkar stendur.
 • Við tökum virkan þátt í starfi skólans og erum aðgengileg fyrir nemendur jafnt innan sem utan hefðbundins skólatíma.
 • Við erum góð fyrirmynd fyrir nemendur og erum meðvituð um þau áhrif sem orð okkar og gjörðir kunna að hafa innan sem utan skóla.
 • Við hugum að því að leiðbeina og og aðstoða nemendur í hvívetna til að þroska sig sem einstaklinga jafnt sem leikmenn í okkar fagi.
 • Við stuðlum að frumkvæði og þátttöku allra nemenda og hugum í hvarvetna að vellíðan þeirra.
 • Við miðlum af þekkingu okkar og reynslu á fjölbreyttan hátt.
 • Við höfum gildi og markmið Lýðskólans á Flateyri ávallt í huga, hvort sem er í kennslu eða utan hefðbundins skólatíma.
 • Við sýnum nemendum ávallt sanngirni og heiðarleika og hvetjum þau til hins sama í samskiptum sín á milli.
 • Við gætum fyllsta trúnaðar á högum nemanda eða hverju því sem nemandi kann að trúa okkur fyrir.
 • Við höfum ávallt í huga hver staða okkar er gagnvart nemendum, hvort sem er innan eða utan hefðbundins skólatíma.
 • Við gætum þess að vera málefnaleg og sanngjörn í umsögnum um nemendur.

Viðmið um vettvangsferðir á vegum skólans

Við Lýðskólann á Flateyri er náttúran og umhverfi Önundarfjarðar og víðar notað sem kennslustofa og í þeim geta leynst ýmsar hættur.

Nemendur, starfsfólk og kennarar Lýðskólans leggja sig fram við að gæta öryggis síns í vettvangsferðum. Í ferðum utan alfaraleiðar og við aðstæður þar sem slys og óhöpp geta orðið leggur Lýðskólinn á Flateyri ríka áherslu á að nemendur séu ávallt í fylgd með kennurum eða leiðsögumönnum með sérþekkingu á þeim sviðum sem máli skipta.

Kennarar skuldbinda sig til að fara ávallt vel yfir öryggisreglur og -búnað áður en lagt er af stað í ferðir með nemendur á vegum skólans og til að fara ítarlega yfir viðbrögð við óhöppum, kynna sér viðbragðsáætlun og kynna hana fyrir nemendum.

Nemendur skuldbinda sig til að fara ávallt eftir reglum og leiðbeiningum frá kennurum og leiðsögumönnum hvað öryggisreglur og viðbrögð við óhöppum varðar.

Helstu öryggisþættir í ferðum skólans:

 • Vönduð hópstjórn og öruggt leiðaval
  Trygg fjarskipti og öguð viðbrögð við óvæntum aðstæðum
  Fyrsta hjálp og björgunaraðgerðir
 • Ekki er hægt að ábyrgjast 100% öryggi í ferðum, ekki frekar en í lífinu sjálfu og nemendur við Lýðskólann á Flateyri taka þátt í ferðum á eigin ábyrgð.

Viðbragðsáætlun við slysum og óhöppum er að finna hér.

Eineltisáætlun Lýðskólans á Flateyri

Nemendur og starfsfólk skulu koma fram við hvert annað af kurteisi og virðingu í öllum samskiptum. Einelti er ekki liðið við skólann. Ef upp kemur grunur um einelti innan skólans er tekið á þeim málum og þau sett í ferli.

Eineltisáætlun Lýðskólans á Flateyri er aðgengileg hér.

Viðbragðsáætlun við einelti:

 • Málið er kannað m.a. með viðtölum við þá aðila sem eiga hlut að máli.
 • Starfsfólk gerir tillögur að lausn málsins innan viku frá því að það kemst upp og leggur það til að viðurlögum verði beitt. 
 • Kannað verður eftir mánuð hvort málið sé leyst og eineltinu hefur linnt. Ef svo er ekki ber teyminu að leita aðstoðar aðila utan skólans við lausn málsins.

Viðbrögð við kynbundnu áreiti og ofbeldi

Kynferðislegt áreiti eða ofbeldi og kynbundið áreiti eða ofbeldi er ekki liðið við Lýðskólann á Flateyri hvort sem er innan eða utan hefðbundins skólastarfs.

Ef einstaklingur innan skólasamfélagsins telur sig hafa orðið fyrir slíku ber skólasamfélaginu að bregðast við skjótt og örugglega og vinna í samræmi við þær verklagsreglur sem eru aðgengilegar hér.

Meðferð ágreiningsmála og brota á siðareglum

Við leggjum okkur öll fram við að leysa ágreining og vandamál strax og þau koma upp. Við byrjum á því að reyna að leysa þau innan hópsins, með aðstoð kennara ef það á við. Á vikulegum hópfundum er jafnframt tilvalið tækifæri til að taka upp mál sem ekki hefur fengist lausn við í smærri hópum. Ef lausn fæst ekki eða ef ágreiningsmál eru stærri eða af öðrum toga en þeim sem leysa má í smærri hópum, snúum við okkur til skólastjóra (kennslustjóra í hennar fjarveru) og óskum eftir íhlutun.

Skipulag, viðurlög og kæruleiðir

Skólaráð tekur við ábendingum og kærum frá aðilum utan og innan skólans. Það úrskurðar um mál sem upp kunna að koma og tengjast starfsfólki, kennurum og nemendum og gjörðum þessara aðila, bæði innan skólatíma og utan. Ráðið getur tekið mál upp að eigin framkvæði telji það ástæðu til.
Við málsmeðferð skal ráðið gæta meginreglna stjórnsýslulaga um upplýsingaöflun, meðalhóf og andmælarétt og úrskurðir ráðsins skulu vera afdráttarlausir og rökstuddir með vísun í brot á siðareglum.
Ráðið ákvarðar ekki um viðurlög við brotum. Slíkt gerir skólastjóri. Heimilt er að vísa ákvörðunum skólastjóra og skólaráðs tiltil stjórnar skólans til úrskurðar, bæði skólaráð og kærandi.

Ef upp kemur grunur eða um staðfest brot á siðareglum er að ræða geta nemendur, kennarar, starfsfólk og íbúar samfélagsins komið ábendingum um mál til skólaráðs sem tekur erindið upp á fundi. Ábendingum og tilkynningum er hægt að koma til skila í gegnum tilkynningagátt skólans; https://lydflat.is/tilkynningagatt/

Ábendingar eða tilkynningar má einnig senda á skólastjóra í tölvupósti á skolastjori@lydflat.is.

Vinnsla og gildi

Reglur þessar öðlast gildi með staðfestingu stjórnar Lýðskólans á Flateyri.
Reglur þessar eru kynntar öllum starfsmönnum, kennurum og nemendum. Þær skulu aðgengilegar á vef skólans.