Sjór og land

Sjór og land

Markmið þessa námskeiðs er að veita nemendum innsýn  í landbúnað og sjávarútveg bæði  í Önundarfirði sem og í nærliggjandi fjörðum.  Á þessu fjölbreytta námskeiði munum við m.a. heimsækja bóndabæ þar sem við kynnumst aðeins bústörfum – nemendur heimsækja fyrirtæki hér á svæðinu og kynnast starfsemi þeirra og framleiðslu. Við munum  kynna  okkur fyrirtæki í sjávarútvegi,  fara út á sjó, fræðast um  fiskeldi og jafnvel reyna að veiða sjálf! Við heimsækjum orkuver, fræðumst um skógrækt á svæðinu og margt fleira.

Kristín Pétursdóttir
búfræðingur og ferðaþjónustuaðili í Önundarfirði

Kristín er alin upp í sveit og er því með bændablóð í æðum. Hún valdi nám Bændaskólanum á Hvanneyri af því að þar voru ekki kenndar neinar íþróttir. Kristín sinnir ferðaþjónustu í Önundarfirði og er mikil áhugamanneskja um varðveiðslu gamalla muna, sögu og verklag. Hún er safnari í eðli sínu og sinnir því áhugamáli af ástríðu. Kristín er mikill náttúruunnandi og veit ekkert betra en að þjóta um fjalllendi Önundarfjarðar á góðum vélsleða.

Steinunn Guðný Einarsdóttir
ferðamálafræðingur, sjókona, förðunarfræðingur og gæðastjóri

Steinunn er fædd og uppalin á Flateyri og hefur eytt stórum hluta af veru sinni á vinnumarkaði á sjó. Foreldrar hennar, bræður og maki hafa einnig öll stundað sjóinn og og þekkir hún því sjósókn frá mörgum hliðum.

Hún dásamar Flateyri og telur það forréttindi að geta búið og alið upp strákana sína á svona frábærum stað.

Áhugamálin eru alltof mörg, hún elskar alla útivist og íþróttir og sinnir þeim af bestu getu sem og hinum ýmsu félagsstörfum. Í góðu vetrarverðri þykir henni hvað erfiðast að þurfa að velja hvaða íþróttir skuli stunda í þessu frábæra umhverfi sem Önundarfjörður er.