Skapandi Hugsun

Skapandi hugsun

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist hugmyndafræði skapandi hugsunar og hvernig sú nálgun getur nýst markvisst í lífi og starfi, ekki hvað síst gagnvart þeim áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag.

 

Farið verður í ýmsar skapandi aðferðir með áherslu á sjálfbærni og samfélagslega nýsköpun og unnið með þær í hópvinnu.

Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir vöruhönnuðir eru hönnunartvíeykið Flétta þar sem endurnýting og uppvinnsla hráefna er meginstefið.

Birta og Hrefna hafa starfað saman að verkefnum sem snúa að endurvinnslu frá árinu 2014 og undir merkjum Fléttu frá 2018. Þær luku námi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árin 2016 og 2017. Saman hafa þær kennt við Myndlistarskóla Reykjavíkur og LHÍ og haldið ýmis erindi og vinnustofur sem koma að endurvinnslu og skapandi hugsun.

Þær stofnuðu til verkefnisins Haugfé (2014) ásamt Auði Ákadóttur, þar sem vakin er athygli á þeim verðmætum sem liggja í hráefnum sem falla til hjá framleiðslufyrirtækjum á Íslandi. Verkefnið leiddi til samstarfs við SORPU við opnun Efnismiðlunar Góða Hirðsins þar sem efni er komið í endurnýtingu áður en það fer til endurvinnslu. Sumarið 2016 tóku þær þátt í samfélagsverkefninu The Travelling Embassy of Rockall (2016), þar sem skapaður var samræðuvettvangur um samfélag framtíðarinnar. 

Hjá Fléttu vinna þær með endurnýtt hráefni og staðbundna framleiðslu. Þær hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum í samstarfi við fatasöfnun Rauða kross Íslands, Rammagerðina, hönnunarfyrirtækið FÓLK Reykjavík og Orkuveitu Reykjavíkur. Flétta hlaut Hönnunarverðlaun The Reykjavík Grapevine fyrir vöru ársins árið 2019 og fyrir vörulínu ársins 2020.