Starfsfólk
Við skólann starfa þrír fastráðnir starfsmenn, skólastjóri, kennslustjóri og verkefnastjóri, auk kennara á námskeiðum hverju sinni.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir
Skólastjóri
Sigga Júlla er skólastjóri Lýðskólans á Flateyri. Hún ber ábyrgð á daglegum rekstri og skólahaldi og tryggir að allt gangi samkvæmt áætlun.
Sigga Júlla hefur frá aldamótum unnið að umhverfismálum og skógrækt, fyrst sem verkefnastjóri hjá Vesturlandsskógum, síðan sem héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Vesturlandi og Vestfjörðum og framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga og nú síðast sem sviðstjóri hjá Skógræktinni. Þar stýrði hún m.a. ráðgjafaþjónustu stofnunarinnar. Sigga Júlla hefur kennt við Landbúnaðarháskóla Íslands, bæði í bændadeild og á háskólastigi. Hún hefur einnig haldið erindi á fjölmörgum fundum, málþingum og ráðstefnum í gegnum tíðina auk námskeiðahalds á sviði umhverfismála og skógræktar.
Sigga Júlla er með mastersgráðu í skógfræði við norska lífvísindaháskólann að Ási í Noregi (Universitetet for miljø og biovitenskap) og BS gráðu í landnýtingu frá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Sigga Júlla býr í Önundarfirði, er gift og á fullt af börnum, hesta og kött. Hún er virk í félagsmálum, situr í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, er formaður skipulags- og mannvirkjanefndar og forseti bæjarstjórnar. Einnig sinnir hún starfi framkvæmdarstjóra Skúrinnar samfélagsmiðstöðvar og Nemendagarða Lýðskólans.

Erla Margrét Gunnarsdóttir
Kennslustjóri
Erla sinnir þróun námsbrauta og námskeiða ásamt því að halda utan um samskipti við kennara skólans. Einnig sér hún um samskipti og stuðning við nemendur og tryggir að þau fái sem mest út úr dvöl sinni við skólann.
Erla er með meistaragráðu í skipulagsfræðum frá Frankfurt og BS gráðu í byggingartæknifræði frá HR. Hún hefur áður unnið að verkefnastjórn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og kennslu við Landbúnaðarháskólann ásamt því að vinna að kvikmyndagerð og leiðsögn. Hún er núna vagnstjóri á Vagninum á Flateyri og þekkir skólann og þorpið vel, enda dvalist á Flateyri undanfarin sumur. Erla Margrét var framkvæmdastjóri Steinsteypufélags Íslands.

Margeir Haraldsson Arndal
Verkefnastjóri markaðs- og tæknimála
Margeir sinnir markaðs- og tæknimálum skólans, er í samskiptum við nemendur og tekur almennan þátt í daglegu starfi skólans.
Margeir er fyrrum Ísfirðingur – núverandi Flateyringur. Hann var nemandi á fyrsta skólaári Lýðskólans og féll fyrir samfélaginu og umhverfinu á Flateyri.
Hann er stofnandi listahópsins Allt Kollektív á Flateyri, sem staðið hefur fyrir list- og menningartengdum viðburðum í þorpinu, en þar sinnir hann einnig hlutverki verkefnastjóra. Samhliða þessu rekur hann framleiðslufyrirtækið Haraldsson Prod. ehf.