Umsóknir og inntökuskilyrði

Sæktu um núna

Formlegur umsóknarfrestur fyrir haustönn er þegar liðinn en við tökum við umsóknum allt árið um kring og setjum fólk á biðlista ef forföll verða á skólaárinu.

Ef þú vilt aðeins vera með okkur á vorönn geturðu sótt um á tímabilinu 1. nóvember til 15. desember 2021. Við munum afgreiða umsóknir um leið og þær berast.

Umsækjendur eru hvattir til að sækja um eins fljótt og auðið er til að auka möguleika á inngöngu. Það er takmarkað pláss. Ef þú sækir um og það er þegar fullt er þér boðið að vera á biðlista.

Þegar umsókn þín hefur verið afgreidd færðu tölvupóst með upplýsingum um vinnslu umsóknarinnar og hagnýtar upplýsingar um greiðslu skólagjalda og næstu skref í tengslum við skólagöngu þína.

Inntökuskilyrði

Hver sem náð hefur 18 ára aldri við upphaf námsannar getur sótt um skólavist við Lýðskólann á Flateyri. Við leitum eftir nemendum sem eru áhugasamir, viljugir og tilbúnir til að taka þátt, deila ábyrgð og prófa eitthvað nýtt.

Það er mikilvægt að þú sért opin/n fyrir nýjum upplifunum og því að reyna á þig við aðstæður sem þú hefur ekki verið í áður. Að þora að stökkva – það er viðhorfið sem gildir.

Fyrir umsækjendur á brautinni Hafið, fjöllin og þú:

Athugaðu að aðeins lítill hluti af námi við námsbrautina Hafið, fjöllin og þú fer fram innandyra, í hefðbundinni kennslustofu. Við verðum mikið úti, í öllum veðrum og stundum við líkamlega krefjandi aðstæður. Og við munum stunda líkams- og hugarrækt, útivist og fjallamennsku af miklum móð. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að vera hreyfanleg og til í ýmislegt.

Reynsla af útivist og fjallamennsku er ekki skilyrði enda eru námskeið sem snúa að útivist og fjallamennsku grunnnámskeið. Einskær áhugi og vilji til að stunda útivist af kappi í heilan vetur eru þó sjálfsögð skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í skólann á brautina Hafið, fjöllin og þú.

Nemendum á brautinni verður skipt í tvo hópa eftir reynslu, áhuga og getu í því skyni að sníða fjallaferðir að hverjum og einum. Gera má ráð fyrir að nemendur þurfi að gangast undir einskonar þrekpróf á fyrsta námskeiði vetrarins til að ákvarða hvorum hópnum þau munu tilheyra.

Nauðsynlegt er fyrir nemendur að átta sig á þeim útivistarfatnaði og -búnaði sem þarf að koma með, sér í lagi á brautinni Hafið, fjöllin og þú. Lista yfir fatnað og búnað má finna hér.

Áður en þú sækir um!

Með umsókninni viljum við gjarnan fá upplýsingar um hver þú ert, hvaðan þú kemur og af hverju þú telur að Lýðskólinn sé kjörinn fyrir þig auk þess sem við viljum gjarnan heyra af áhuga þínum og reynslu á þeim sviðum sem snúa að þeirri námsbraut sem þú sækir um nám á.

Við val á nemendum munu þær upplýsingar hafa mun meira vægi en menntun og starfsreynsla. Kynningu má skila skriflega, í stuttu bréfi eða í stuttu myndbandi þar sem þú segir okkur frá þér.

Afgreiðsla umsókna fer fram jafnóðum og umsóknir berast. Umsækjendur eru hvattir til að sækja um sem fyrst til að auka líkur á inntöku.

Skólinn tekur eingöngu við rafrænum umsóknum sem sendar eru í gegnum umsóknarsíðuna.