Útskrift Lýðskólans á Flateyri fór fram í dag, 1. maí í þriðja sinn frá stofnun skólans. Vegna samkomutakmarkana var athöfninni streymt á facebook síðu skólans. 32 nemendur útskrifuðust frá skólanum að þessu sinni, 17 af námsbrautinni Hafið, fjöllin og þú og 15 af námsbrautinni Hugur, heimurinn og þú.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði nemendur um fjarfundabúnað og óskaði þeim til hamingju með daginn. Hún sagði Lýðskólann efla nemendur sína sem einstaklinga en einnig bæði samfélagið í kring og landið allt.
Við athöfnina tilkynnti núverandi skólastjóri, Ingibjörg Guðmundsdóttir að hún hyggðist láta af störfum sem skólastjóri í sumar. Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar þakkaði Ingibjörgu góð og mikilvæg störf á erfiðum tímum snjóflóða og heimsfaraldurs.
Katrín María Gísladóttir tekur við af Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem skólastjóri.
Nýr skólastjóri verður Katrín María Gísladóttir. Katrín María er Flateyringur. Hún er með B.A. í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri (2011) og meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst (2017). Katrín María er nú aðstoðarskólastjóri Lýðskólans á Flateyri en var áður verkefnastjóri tungumálakennslu flóttabarna hjá Ísafjarðarbæ og kennari við Grunnskólann á Flateyri. Hún hefur einnig frá árinu 2019 átt sæti í stjórn Lýðskólans og þekkir því starf skólans afar vel.