
Hvað er lýðskóli
Nám við lýðskóla er ólíkt því sem við eigum að venjast í hefðbundnum framhaldsskólum. Í lýðskóla fá nemendur og kennarar tækifæri til að vera við leik og störf og prófa sig við ólík viðfangsefni án þess að þurfa að sökkva sér niður í fræðilegar kenningar og skólabækur.
Samtöl og samvinna, verklegt nám og vettvangsferðir eru lykilorð. Námsmat og endurgjöf í lýðskólum er ekki fengið með hefðbundnum prófum og einkunnum heldur í gegnum fundi og samtöl. Þetta gefur lýðskólum frelsi til að mennta og þroska nemendur með óhefðbundnum en árangursríkum leiðum.
Fyrir hverja er lýðskóli?
Lýðskólar gera sjaldnast sérstakar inngöngukröfur sem tengjast menntun eða fyrri störfum en geta í samræmi við einkenni hvers skóla lagt mismunandi áherslur þegar þeir velja nemendur. Þar vega áhugasvið, viðhorf og persónuleiki umsækjenda iðulega þyngst.
Ungt fólk sem hefur nýlokið framhaldsskólaprófi velur gjarnan að fara í lýðskóla og fá þannig næði og tíma til að átta sig á styrkleikum, veikleikum og vilja til frekara náms. Einnig er algengt að fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi sæki í lýðskóla og nýti þannig tækifæri sem þetta til að hefja nám á ný.
Algengur aldur nemenda við lýðskóla er 18-30 ára en við tökum gjarnan á móti nemendum sem eru eldri en 30 ára og ekki síður bjóðum við fjölskyldufólk velkomið.
Spennandi nám og krefjandi viðfangsefni
Með áhugasömum og faglegum kennurum, frelsi frá prófum, með nýjum vinum og ævintýrum, starfsnámi, heimavist og fullt af spennandi vettvangs- og námsferðum gera lýðskólar nemendum kleift að þróa og kanna styrkleika sína í gegnum starfsnám, nýja reynslu og nána samveru í skólasamfélagi.
Megináhersla er lögð á að uppgötva og styrkja einstaka hæfileika hvers nemanda í krefjandi umhverfi sem jafnframt einkennist af samvinnu og stuðningi.
Lífið í lýðskóla
Í lýðskóla búa nemendur iðulega saman á einhvers konar heimavist og deila herbergi með öðrum. Þeir læra mikið af því að búa og vinna með öðrum. Eitt er víst, með því að búa með fólki kynnast nemendur á hátt sem þeir gera ekki á venjulegum skólatíma. Það kennir nemendum líka mikið um sjálfa sig.
Að búa með samnemendum þýðir að skilin á milli náms og félagslífs verða óskýr. Nemendur hafa aðgang að skólaaðstöðu utan skólatíma og það gefur þeim frelsi til að vinna saman að sínum hugðarefnum. Nemendur skipuleggja nemendakvöld, ferðalög og aðra viðburði og félagslíf. Mikilvægur þáttur í lýðskóla er einnig samvinna og samvera með íbúum þess samfélags sem umkringir skólann.
Þjóðfélagsleg áhrif lýðskóla
Lýðskóli svarar ríkri kröfu um fleiri valkosti í menntun á Íslandi. Það er nýlunda á Íslandi að einstaklingum standi til boða að búa og nema við skóla þar sem ekki er lögð áhersla á hefðbundinn námsárangur og prófgráður.
Ný og yfirgripsmikil greining, sem unnin var fyrir Samtök lýðskóla í Danmörku (Folkehöjskolernes Forening i Danmark (FFD)) sýnir veruleg áhrif af veru í lýðskóla á ungt fólk sem hefur fallið úr skóla í hinu hefðbundna menntakerfi. Líkurnar á að snúa aftur til náms og halda áfram í námi á æðri stigum aukast verulega við nám í lýðskóla.
Vera í lýðskóla á einnig virkan þátt í að auðvelda brottfallsnemendum og fólki í atvinnuleit og starfsendurhæfingu að halda virkni sinni og hjálpa því að auka möguleika sína til atvinnuþátttöku með því að nýta bæði námskrá og það samfélag sem skólinn býður upp á.
Frekari lestur:
Resumé: Analyse af højskolernes effekt på uddannelse (á dönsku)
The development of folk high schools (á ensku)