Lífið á norðurslóðum

Þetta er námsleiðin fyrir þann sem dreymir um að læra að ferðast, upplifa náttúruna, vinna með afurðir hennar, nýta og kanna á öruggan hátt. Samfélag, atvinnuhættir, innviðir og umhverfismál Vestfjarða fá stórt vægi í kennslunni og munu nemendur öðlast skilning á þeim áskorunum og tækifærum sem eru á þessu dreifbýla svæði.

Sjálfbærni er víðfeðmt hugtak sem nemendur í Lýðskólanum, eins og allir, þurfa að kynna sér. Það snertir ekki eingöngu umhverfismál heldur einnig samfélagsleg mál sem snúa t.d. að heilsu, velferð og efnahag. Skilningur myndast á því að náttúran setur umsvifum fólks takmörk og búseta á norðurhjara er oft á tíðum flókin og háð takmörkunum sem snúa að strjálbýli og umhverfisaðstæðum, eins og t.d. veðri. Á Flateyri læra nemendur að takast á við þau takmörk sem náttúran setur. 

Ef náttúran heillar er Önundarfjörður með allt til alls, svo að nemandinn geti notið sín í Lýðskólanum á Flateyri. Nemendur munu eyða stórum hluta tímans utandyra í öllum veðrum og við ýmsar aðstæður, sem geta oft reynt á og verið framandi.

Námsbrautin verður kennd á ensku sem býður jafnframt uppá skemmtilegt samspil nemenda með ólíkan bakgrunn.

Á þessari námsbraut munu nemendur:

  • Fá einstakt tækifæri til að búa í litlu samfélagi á norðurhjara.
  • Lenda í ævintýrum með nýjum vinum.
  • Víkka sjóndeildarhringinn og læra eitthvað nýtt.
  • Kynnast allskyns möguleikum á útivist.
  • Sinna sjálfsrækt og rækta styrkleika sína.
  • Prófa sig í nýjum aðstæðum.

Námskeið