Um Lýðskólann á Flateyri

Lýðskólinn á Flateyri býður nemendum tækifæri til að eflast og þroskast í samfélagi nemenda, starfsfólks og íbúa á Flateyri og nágrenni.

Dvöl við Lýðskólann á Flateyri snýst um miklu meira en bara nám og skóla. Á meðan á dvöl á Flateyri stendur munu nemendur búa saman, borða saman, læra, þrífa, skemmta sér og vera hluti af samfélagi.

Samfélag nemenda og íbúa er fjölbreytt og skemmtilegt utan skólatíma. Partur af því að vera í lýðskóla er að vera saman, hafa ofan af hvert fyrir öðru og ekki síður læra hvert af öðru. Nemendur eru hvattir til að halda viðburði og auka við eða taka þátt í þeirri afþreyingu og þjónustu sem er á Flateyri.

Á Flateyri kynnast nemendur nýjum hliðum á sér og hafa tíma til að átta sig á styrkleikum sínum og reyna sig í aðstæðum og verkefnum sem þeim hafði ekki dottið í hug að reyna við.

Í Lýðskólanum eru engin próf, engin verkefnaskil, engar einkunnir, bara mæta í skólann, njóta og læra nýja hluti. Hver skóladagur hefst með sameiginlegum morgunmat og morgunfundi. Á morgunfundum eru málefni líðandi stundar rædd, dagurinn er skipulagður og tækifæri gefst til að koma málum á dagskrá.

Í námi þar sem nemendur eru saman allan sólarhringinn, líkt og iðulega er í lýðskóla, eru samtöl og samvera samofin námi og verkefnavinnu sem gefur nemendum færi á að prófa sig áfram í allsskonar verkefnum og taka upplýsta ákvörðun um frekara val á námi eða stefnu í lífinu.

Kennsluhættir

Lýðskólinn snýst í grunninn um reynslu og upplifun í staðinn fyrir hefðbundið bóklegt nám. Lýðskólinn býður upp á verklegt nám þar sem nemendur læra með því að gera. Nemendur vinna að raunverulegum verkefnum með öflugum kennurum.

Engin próf, engar einkunnir, ekkert vesen.

Skólinn er fyrir nemendurna. Við Lýðskólann fá nemendur reynslu í því sem þau hafa áhuga á, á einstaklingsmiðaðan hátt, sem víkkar sjóndeildarhringinn og hjálpar þeim að finna sína styrkleika og sitt áhugasvið.

Kennt er í lotum og hvert námskeið stendur í 1-2 vikur. Með þessu móti fá nemendur tækifæri til að einbeita sér að einstöku greinum í lotu og kynnast fjöldanum öllum af kennurum sem eru sérfræðingar í því fagi sem kennt er. Þetta þýðir að nemendur fá “smáréttahlaðborð” af námskeiðum yfir veturinn og á hverju námskeiði er nýr kennari. Það er eitt af því dýrmætasta sem nemendur taka með sér úr skólanum er tengslanet í gegnum kennara, starfsfólk og samnemendur.

Aðstaða fyrir nám og skóla

Aðalhúsnæði skólans er á 2. hæð í gamla kaupfélaginu sem stendur við Hafnarstræti 11. Þar er vítt til veggja og útsýni til allra átta. Í húsnæðinu er aðstaða til kennslu ásamt því að þar geta nemendur komið saman og unnið innan og utan skólatíma. 

Kennsla fer einnig fram víðsvegar um þorpið, innandyra og utan. Fyrirtæki og einstaklingar á Flateyri og nágrenni hafa boðið fram aðstöðu fyrir skólann, til kennslu, fyrir viðburði og félagsstarf. Bátar til sjósóknar, fiskvinnsla, eldhús, fjós, skógur og tún eru dæmi um aðstöðu sem kemur sér vel fyrir kennslu og æfingar.

Náttúran í Önundarfirði og nágrenni, hafið, fjöllin og landið er fallegasta og besta kennslustofan sem er vel nýtt af nemendum og kennurum skólans.

Skrifstofa starfsfólks Lýðskólans er í Skúrinni samfélagsmiðstöð, Ránargötu 1 á Flateyri.

Starfsfólk

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Skólastjóri

+354 861 5649

sigga@lydflat.is

Sigga Júlla er skólastjóri Lýðskólans á Flateyri.  Hún ber ábyrgð á daglegum rekstri og skólahaldi og tryggir að allt gangi samkvæmt áætlun.

Erla Margrét Gunnarsdóttir

Kennslustjóri

+354 698 3931

Erla@lydflat.is

Erla sinnir þróun námsbrauta og námskeiða ásamt því að halda utan um samskipti við kennara skólans. Einnig sér hún um samskipti og stuðning við nemendur og tryggir að þau fái sem mest út úr dvöl sinni við skólann.

Margeir Haraldsson Arndal

Verkefnastjóri markaðs- og tæknimála

+354 773 6687

margeir@lydflat.is

Margeir sinnir markaðs- og tæknimálum skólans, er í samskiptum við nemendur og tekur almennan þátt í daglegu starfi skólans.

Eyjólfur Karl Eyjólfsson

Húsvörður

+354 820 1984

Eyjólfur sinnir almennu viðhaldi á fasteignum skólans ásamt ýmsum öðrum verkefnum.