Hluti vettvangsferðar hugmyndabrautar í annari viku mánaðarins var erindið „Arkitektúr, aktívismi og sjónræn haffræði“ sem Sigrún Perla flutti í Vísindaporti í Háskólasetrinu.
Perla sýndi og sagði frá lokaverkefni sínu og Ditte Horsbøl Sørensen frá sjálfbærnideild Arkitektúrskólans í Árósum. Verkefnið “Inhabiting the Roof Archipelago” er hamfaraútópía teiknuð inn í heim þar sem sjávarborð hefur risið, húsin orðin að eyjum og þök þeirra eina landið sem eftir er. Plastið í sjónum er þar jafnframt lifibrauð íbúa og byggingarefni borgarinnar. Þá stiklaði Perla á stóru um skapandi feril sem fléttar saman haffræði, arkitektúr, gjörningalist, siglingum og aktívisma.
Siggi Bjarni sem hélt námskeið í ferðaskipulagi og leiðsögn fyrir nemendur á útibraut nýtti tækifærið og hélt erindi á Vagninum þar sem hann sagði frá för sinni upp á Everest en ferðin var söfnunarátak til styrktar samtakanna Umhyggju sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.
Siggi sagði frá því hvernig honum, ásamt Heimi Fannari Hallgrímssyni, tókst að klífa hæsta tind jarðar þrátt fyrir slæmt veðurfar, meiðsli og covid-veikindi. Það var áhugavert að heyra sögurnar og fá innsýn í ferðalagið þeirra.
Við þökkum Sigga Bjarna og Perlu kærlega fyrir viðburðina og erum á sama tíma gríðarlega ánægð með kennsluna og vettvangsferðirnar sem þau fóru í (þó í sitthvoru lagi) með nemendum og teljum okkur heppin að hafa þessa heimsklassa kennara í skólanum okkar.
Súgfirsku systkinin Hrafnkell Hugi, Katla Vigdís og Valgeir Skorri skipa hljómsveitina CELEBS sem tekur þátt í söngvakeppni sjónvarpsins, 18. febrúar næstkomandi. Við erum sérstaklega spennt að segja frá þessu þar sem Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís eru bæði útskrifaðir Lýðskælingar!
Við erum ofur stolt af þessum súper-systkinum, óskum þeim alls hins besta í söngvakeppninni og hvetjum öll að sjálfsögðu til að fylgjast með þeim og kjósa þau áfram!
Á föstudaginn (3. febrúar) var opið hús í nemendagörðum af því tilefni að byggingarnar eru orðnar fokheldar og verkinu miðar vel áfram. Fyrir gangandi vegfarendum (og þeim sem fylgjast með í gegnum vefmyndavél) gæti litið þannig út að lítið hafi gerst í upprisu nemendagarða síðastliðna 2 mánuði en eins og góðir gluggagægjar hafa tekið eftir er allt að gerast innandyra, nú eru húsin orðin fokheld, komið rafmagn, gluggar og gler og einangrun. Í næstu viku verður svo byrjað að mála og sparsla. Eftir tvær vikur er von á klæðningu sem verður sett utan á húsið.
Hér má sjá hönnun hússins að utan eins og það verður þegar það er tilbúið.
Í byrjun annar fengu nemendur af báðum brautum að vera saman á námskeiði sem við köllum Frumefli 2 sem er framhald af fyrsta áfanga skólaársins en það hefur reynst vel að byrja hverja önn á samskiptaþjálfun og hópefli, en það er líka mikilvægt að nemendur fái að eyða tíma með þeim sem eru ekki á þeirra braut. Aggi okkar leiddi þau í gegnum markmiðasetningu ásamt því að rifja upp, breyta og bæta reglur um samskipti sem þau settu sér sem hópur í byrjun skólaárs.
Sigrún Perla og Olga Elliot fóru yfir fjölbreytta möguleika framtíðarinnar með nemendum á hugmyndabraut, þær fóru yfir lista af skólum sem nemendur geta sótt um eftir útskrift frá lýðskólanum og gáfu þeim góð almenn ráð varðandi umsóknarferli. Nemendur lærðu að binda bækur og unnu í portfolio þar sem verkefni vetrarins komu við sögu sem nýtist þeim afar vel í hverju sem þau taka sér fyrir hendur eftir skólann.
Í lok vikunnar fór Perla með nemendur í vettvangsferð í Vestrahúsið á Ísafirði þar sem Háskólasetur Vestfjarða, Hafrannsóknastofnun, Vestfjarðarstofa og fleiri stofnanir og fyrirtæki eiga aðsetur. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða tók á móti nemendum og sýndi þeim húsið og fengu þau stutta kynningu á hluta þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru í húsinu. Eftir kynninguna bauð svo Háskólasetrið í Vísindaport sem er fastur liður á föstudögum þar á bæ. Efni Vísindaports eru afar fjölbreytt en þennan föstudaginn var það okkar eina sanna Perla kennari sem átti erindi vikunnar!
Þriðja áfanga annarinnar hjá hugmyndabraut var skipt í tvennt, þá var Jonathan Gerlach að kenna í fyrri vikunni þar sem áherslan var lögð á hönnun, framsetningu og útlit. Nemendur fengu örnámskeið í skjáhönnunarforritinu Figma og lærðu að hanna stafrænt viðmót.
Einar Þór Gústafsson tók svo við í seinni viku námskeiðsins þar sem nemendur einbeittu kröftum sínum að forritun og vefsíðugerð. Einar kenndi nemendum á Webflow sem er vefsvæði til að smíða vefsíður frá grunni. Nemendur skiptu sér í hópa og gerðu tillögur að nýjum útgáfum af vefsíðu skólans sem þau svo kynntu fyrir starfsfólki og nemendum af útibraut í lok námskeiðs.
Siggi Bjarni kenndi nemendum á útibraut grundvallaratriði í ferðaskipulagi og hvernig best er farið að því að leiðsegja hóp. Nemendur fengu verklega kennslu og skiptust á að leiða hópinn og taka í stýrið í skipulagi ferða sem þau fóru í þessar vikur og endaði námskeiðið á tjaldútilegu í botni dýrafjarðar.
Garðar Hrafn, Elísabet og Óli fóru með nemendur í lengri og styttri göngur, æfðu ratanir og fengu að læra um viðbrögð og leitanir í snjóflóðum með því að kynna sér og nota búnað á borð við snjóflóðaýla og snjóflóðastangir. Þá fékk hópurinn einnig að reyna vel á líkamlegt þrek og sigrast á lofthræðslunni með ísklifri. Þau stóðu sig eins og hetjur.