Heilsudagar

Lengd námskeiðs

3 dagar

Lengd námskeiðs

3 dagar

Heilsudagar

Markmið námskeiðs
Markmiðið er að kynna fyrir nemendum mikilvægi þess að huga að andlegri og líkamlegri heilsu.
Námskeiðslýsing

Kynntar verða áhrifaríkar leiðir til að auka vellíðan nemenda með því að efla geðheilsu og líkamlega heilsu. Fengnir verða sérfræðingar í geðheilbrigðismálum, næringarfræði og heilsufræði til að kenna nemendum aðferðir til að styðja við góða heilsu.

Lærdómur/hæfni í lok námskeiðs:
Að nemendur setji sér markmið og búi til heilsueflandi rútínu sem hentar hverjum og einum.

Helena Jónsdóttir

Klínískur sálfræðingur

Helena er eigandi og hugmyndasmiðurinn á bak við Mental ráðgjöf, leiðandi fyrirtækis í ráðgjöf við vinnustaði sem vilja hlúa að geðheilbrigði starfsólks. Helena er klínískur sálfræðingur að mennt og hefur hún í gegnum tíðina safnað ómetanlegri reynslu, ekki aðeins í sálfræðinni heldur með veru og búsetu á fjarlægum slóðum á borð við Afganistan, Líbanon, Suður-Súdan og Egyptalandi, þar sem hún vann með Læknum án landamæra sem sálfræðingur.

Helena kann því vel að blanda fagþekkingu sinni og ástríðu fyrir útiveru og þránni við að kanna ótroðnar slóðir. Sú tilhneiging hennar leiddi hana til Flateyrar árið 2018 þar sem hún leiddi það verkefni að setja á stofn Lýðskólann á Flateyri og var hún fyrsti skólastjóri skólans á milli þess sem hún skellti sér upp í fjall með fjallaskíðin undir sér.

Elísabet Reynisdóttir

Næringarfræðingur

Beta Reynis hefur starfað sem næringarfræðingur og næringarþerapisti frá árinu 2008. Hún lauk diploma námi í næringarþerapíu frá CET í Danmörku árið 2008 og útskrifaðist með meistaragráðu í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2016. Beta hefur skrifað fjölmargar greinar í dagblöð og á doktor.is, veitt ráðgjöf og gefið álit í sjónvarpi og útvarpi. Þá hefur hún flutt fjölda fyrirlestra fyrir einstaklinga, vinnustaði og félagasamtök. Hefur skrifað bækur og ein þeirra er „Þú ræður – náðu stjórn“ með 4 vikna matarprógrammi í ársbyrjun 2024. Í bókinni kennir Beta lesendum einfaldar og árangursríkar heildrænar aðferðir sem stilla af blóðsykurinn og leggja grunn að bættri líðan.

Þegar Beta var lítil stelpa á Vopnafirði átti hún sér þann draum að læra matvælafræði og jafnvel bæta seinna við sig námi í næringarfræði. Þessi draumur var reyndar alveg stjarnfræðilega langt í burtu frá þeim veruleika sem hún bjó þá við, en á þeim tíma vann hún í fiski með skólanum. Seinna átti hún eftir að skilja það enn betur hversu mikilvægt það er fyrir lífshamingju okkar að eiga sér markmið og drauma til að stefna að. Það fylgir því nefnilega svo skemmtileg tilhlökkun þegar við stefnum að eftirsóknarverðu lokamarkmiði á sama tíma og við þurfum að takast á við áskoranir sem reyna hressilega á úthald okkar og seiglu og koma okkur oft á tíðum langt út fyrir þægindarammann.