Lengd námskeiðs
1 vika
Lengd námskeiðs
1 vika
Farið verður í grundvallaratriði viðburðastjórnunar; allt frá hugmynd til framkvæmdar opins viðburðar í nærsamfélagi skólans. Helstu verkþættir í viðburðastjórnun, s.s. áætlanagerð, kynningarmál og áhættumat verða kynntir með reynslunámi, þar sem nemendum gefst kostur á að takast á við verkefnið og læra af því sem fram fer; bæði því sem heppnast vel og því sem betur hefði mátt fara. Þá verður sérstakur gaumur gefin að samstarfi í litlum teymum, samskiptum og verkaskiptingu. Í lok viku endurmeta nemendur viðburðinn, ásamt því að móta hugmyndir fyrir verkefni í samfélagsviku skólans.
Lærdómur/hæfni í lok námskeiðs:
Að nemandi hafi gengið í gegnum allt ferlið við að halda viðburð, lært af því og kynnst aðferðum viðburðastjórnunar.
Kolbrún, sem gjarnan er kölluð Kolla, er viðburðastýra, fermingarfræðari og skáti, fædd og uppalin í Árbænum en fór snemma að ferðast út um allan heim (aðallega til Suður-Ameríku) til að stækka sjóndeildarhringinn aðeins. Kolla flutti til Edinborgar árið 2021 þar sem hún kláraði mastersgráðu í viðburðastjórn og markaðsfræði.
Eftir að náminu lauk flutti Kolbrún aftur til Íslands þar sem hún starfaði sem mótsstjóri Landsmóts skáta, sem er vikulöng útilega þar sem skátar alls staðar að úr heiminum koma og upplifa ævintýralega viku saman. Nú starfar Kolla sem verkefnastjóri Hinsegin daga í Reykjavík.
Kolla ferðast ennþá út um allt (samt aðallega bara til Suður-Ameríku) og vinnur nú að því að prófa eins mörg flóttarými og hún getur.
Inga Auðbjörg er verkefnastjóri, athafnastjóri og karaókíkempa, sem fæddist í Reykjavík, ólst upp á Álftanesi en á ættir að rekja til Ísafjarðar (eins og flest Straumlönd). Inga útskrifaðist frá KaosPilot-skólanum í Árósum 2010 þar sem hún lagði stund á skapandi verkefnastjórnun og frumkvöðlafræði og bætti svo við sig MPM-gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2018.
Inga hefur að mestu starfað við viðburðastjórnun og fræðslustörf hjá félagasamtökum síðustu árin, svo sem hjá UNICEF, skátunum, og fleiri samtökum. Hún hefur tekið að sér stjórnun stórviðburða, svo sem Hinsegin daga á árunum 2022-2024, Kvennaverkfallsins 2023 og Kvennaárs og Kvennaverkfalls 2025. Þá starfaði hún sem vefhönnuður um nokkurra ára skeið. Inga er einnig athafnastjóri hjá Siðmennt og nefnir, fermir, giftir og jarðsyngur húmanista, árið um kring.
Þegar Inga er ekki að fylla miðborgina af fólki, unir hún sér við kórsöng, textasmíðar við söngleikjatónlist og að ráða niðurlögum dreka í dýflissum, sem bísexúalískur, mandolínleikandi hálforki.