Lýðskólar eru eins konar lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina. Í lýðskólum er ekki lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og skemmtilegt. Þetta gefur lýðskólum frelsi til að mennta og þroska nemendur með óhefðbundnum en árangursríkum leiðum.
Nám við lýðskóla er því ólíkt því sem við eigum að venjast í hefðbundnum framhaldsskólum. Í lýðskóla fá nemendur og kennarar tækifæri til að vera við leik og störf og reyna sig við ólík viðfangsefni án þess að þurfa að sökkva sér niður í fræðilegar kenningar og skólabækur.
Lýðskólar svara ríkri kröfu um aukinn fjölbreytileika í menntun á Íslandi. Það er nýlunda á Íslandi að einstaklingum standi til boða að búa og nema við skóla þar sem ekki er lögð áhersla á hefðbundinn námsárangur og prófgráður.
Þjóðfélagsleg áhrif Lýðskóla
Yfirgripsmikil greining, sem unnin var fyrir Samtök lýðskóla í Danmörku (Folkehöjskolernes Forening i Danmark (FFD)) sýnir veruleg áhrif af veru í lýðskóla á ungt fólk sem hefur fallið úr skóla í hinu hefðbundna menntakerfi. Niðurstöður greiningarinnar sýna að líkurnar á að snúa aftur til náms og halda áfram í námi á æðri stigum aukast verulega við nám í lýðskóla.
Vera í lýðskóla á einnig virkan þátt í að auðvelda brottfallsnemendum og fólki í atvinnuleit og starfsendurhæfingu að halda virkni sinni og hjálpa því að auka möguleika sína til atvinnuþátttöku með því að nýta bæði námskrá og það samfélag sem skólinn býður upp á.