Í þessu felst staðfesting á því að starfsemi skólans uppfylli skilyrði nýrra laga um lýðskóla en meðal atriða sem metin eru, tekin út og staðfest eru rekstrarform, skólanámskrá, skipulag náms, markhópur nemenda, fjárhagsleg ábyrgð og rekstraröryggi, innra matskerfi og starfsaðstaða.
„Þetta er mikið gleðiefni fyrir okkur starfsfólk, nemendur, Flateyringa alla og annarra velunnara skólans að fá þessa viðurkenningu“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðskólans á Flateyri. „Nú getur Mennta- og menningamálaráðuneytið í kjölfarið gert við okkur varanlegan rekstrarsamning, en viðurkenningin er forsenda slíks samnings samkvæmt lögum um lýðskóla.“
„Þetta er langþráður áfangi í sögu skólans og staðfesting á því góða starfi sem þar hefur verið unnið síðustu þrjú árin frá stofnun skólans“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðskólans á Flateyri. „Ég óska skólastjóra, öðru starfsfólki og nemendum til hamingju með áfangann og daginn. Þessi viðurkenning merkir það að skólinn er kominn til að vera. Lýðskólinn á Flateyri og lýðskólar almennt eru með þessu orðinn fastur hluti af íslensku menntakerfi eftir áratuga baráttu og tilraunir til að festa lýðskóla í sessi hérlendis með sambærilegum hætti og í nágrannalöndum okkar.“
Nú stunda tæplega 30 nemendur nám við skólann á tveimur brautum. Inntaka nemenda fyrir næsta skólaár stendur yfir en markmið skólans er að taka inn allt að 40 nemendur næsta haust. Síðasta ár sóttu rúmlega 60 nemendur um skólavist við skólann.