Flateyri

Flateyri er einstaklega fallega staðsett eyri í miðjum Önundarfirði sem af mörgum er talinn einn af fegurstu fjörðum landsins. Við viðurkennum fúslega að við erum þeim öllum sammála. Hér er vítt til fjalla og er fjörðurinn umlukinn mörgum tiltölulega lágum en stórbrotnum fjöllum. Til að kóróna fegurðina er að finna, innarlega í firðinum, sérstaklega fallega sandfjöru og sandrif þar sem hvítur sandurinn skapar einstaklega fallegar andstæður við náttúruna og sjóinn.

Náttúran er hér allt um lykjandi með öllum sínum möguleikum og auðlindum. Sjórinn er ávallt innan seilingar, stutt upp í fjall og á innan við fimm mínútna göngu ertu kominn úr alfaraleið, út í óbyggðir.

Flateyri stendur við Önundarfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ sem samanstendur af mörgum byggðarkjörnum auk Flateyrar. Sveitarfélagið varð til þegar sameining sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum átti sér stað árið 1996. Þá sameinuðust Þingeyri, Mýrahreppur, Mosvallahreppur, Flateyri, Suðureyri og Ísafjörður undir nafninu Ísafjarðarbær. Fimm byggðarkjarnar eru í sveitarfélaginu en það eru Ísafjörður, Hnífsdalur, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Íbúar sveitarfélagsins eru rúmlega 3.500. Flest öll þjónusta er til staðar í sveitarfélaginu en megin þjónustukjarninn er á Ísafirði.

Flateyri er stærsti byggðarkjarninn í Önundarfirði sem einnig telur hús og íbúa í dreifbýli. Á Flateyri búa í kringum 200 manns allt árið um kring.

Íbúar Flateyrar hafa löngum verið þekktir fyrir að taka vel á móti aðkomufólki og opna arma sína og samfélag fyrir þeim sem hingað flytjast, hvort sem það eru innflytjendur frá öðrum þjóðlöndum, listamenn og annað utanbæjarfólk sem hér á sumarhús. 

Flateyri: Þjónusta og áhugaverðir staðir 

Ísafjarðarbær: Sveitafélag

Ísafjarðarbær: Strætisvagnir

Vesfirðir: Þorp og bæir

Á Flateyri er rekinn sameinaður leik- og grunnskóli og fer kennsla fram á tveimur stöðum, í leikskólahúsnæði Grænagarðs og í grunnskólanum. Í grunnskólanum er boðið upp á frístundaheimili fyrir yngri börn ásamt því sem rekin er félagsmiðstöð fyrir eldri börnin, tvo til þrjá eftirmiðdaga og kvöld í viku.

Á Flateyri er rekin hin myndarlegasta íþróttamiðstöð með góðri sundlaug og ágætis aðstöðu til líkamsræktar auk þess sem íþróttahúsið er vel útbúið og hæft til ýmiskonar íþróttaiðkunar. Í flestum byggðarkjörnum Ísafjarðarbæjar er að finna góðar sundlaugar.

Mismunandi er eftir tíma og frumkvæði heimafólks hvaða tómstundir eða íþróttir eru í boði hverju sinni. Hópar heimamanna og nærsveitarmanna hafa gjarnan tekið sig saman og stundað blak, badminton, kajakæfingar og almenna líkamsrækt auk þess sem boðið hefur verið upp á jóganámskeið. Íþróttahús Flateyrar stendur lýðskólanemendum til boða í einhverjar klukkustundir á viku. Hér er það drifkrafturinn og hugmyndaauðgin sem gildir.

Á Flateyri er að finna samkomustaðina Bryggjukaffi, Vagninn og Gunnukaffi. Í Gunnukaffi er hægt að kaupa allar helstu nauðsynjavörur. Þar er einnig hægt að kaupa venjulegan heimilismat á virkum dögum en einnig er hægt að panta hefðbundin skyndimat af matseðli bæði á virkum dögum sem og um helgar.

Á fyrsta skólaári Lýðskólans varð sú breyting að Vagninn hefur verið opinn einu sinni í viku og hafa Lýðflatingar og bæjarbúar tekið þeirri breytingu fagnandi og hittast þar reglulega við hina ýmsu viðburði. Aðrir staðir eru því miður opnir aðeins endrum og eins yfir vetrartímann. 

Ísafjörður er einungis í 20 km fjarlægð og keyrt er í gegnum myndarleg göng sem auðveldar mjög allar samgöngur. Á Ísafirði er að finna alla almenna þjónustu og þar eru til að mynda tvær góðar matvöruverslanir; Nettó og Bónus auk góðrar fiskbúðar.

Almenningssamgöngur á milli Flateyrar og Ísafjarðar og annarra byggðarkjarna eru nokkuð stopular og miðast við skólatíma. 

Flateyrarlaug

Grunnskóli Önundafjarðar