Mánuðurinn var heldur betur viðburðaríkur hjá nemendum skólans og mörgu að segja frá, haldið ykkur fast!
Vika 1 – Svett
Útibrautin byrjaði mánuðinn á andlegri og líkamlegri hreinsun í svett athöfn. Svett er helgisiður frumbyggja í Norður-Ameríku og felur í sér hreinsun fyrir huga, sál og líkama en samskonar athafnir er einnig að finna í sögu Kelta. Á námskeiðinu smíðuðu nemendur svett-tjald við Holtsbryggju eftir teikningu og leiðsögn Jóns Péturs. Laila Awad, sem býr yfir áratugareynslu í svetti, fræddi nemendur um svett hefðina og undirbjó þau vel til að taka þátt í henni. Að lokum leiddi hún svo nemendur í gegnum athöfnina sem reyndist nemendum krefjandi og gefandi.
Vika 2 – Land og haf
Í annarri viku mánaðarins fór útibrautin á námskeiðið “Land og haf” með Siggu Júllu við stýrið, þar sem nemendur fengu kynningu á landbúnaði og sjávarútvegi, kíktu í heimsóknir til fyrirtækja og fengu kynningu á ýmiss konar starfsemi bæði innan sem utan Önundarfjarðar.
Vika 3 og 4 – Fjallamennska 1
Nemendur á útibrautinni fóru svo á námskeiðið Fjallamennska 1 sem Garðar Hrafn Sigurjónsson kennir ásamt góðum aðstoðar kennurum. Á námskeiðinu öðlast nemendur dýpri skilning á að stunda fjallamennsku og útivist af öryggi og á eigin vegum, en námskeiðið er framhald af námskeiðinu Fjallamennska – Grunnur sem kennt var í september. Nemendur fengu kennslu í ferðahegðun, ferða- og útivistarbúnaði, mataræði á ferðalögum, veðurfræði, leiðavali og rötun.
Vika 1 – Skapandi skrif
Mánuðurinn hjá hugmyndabrautinni hófst með námskeiðinu Skapandi skrif sem Kristín Ómarsdóttir kennir. Á námskeiðinu lærðu nemendur grundvallaratriði skáldskapar og fengu að spreyta sig á fjölbreyttum aðferðum við að skrifa texta í ýmsu samhengi. Áhersla var lögð á aðferðir sem leysa sköpunarkraftinn úr læðingi og losa um hömlur.
Vika 2 – Samskynjun
Haraldur Jónsson fór með nemendur í námskeið um Samskynjun sem er könnun á nánasta umhverfi í gegnum skapandi leik með forvitnina að leiðarljósi. Hinir ýmsu miðlar mynd- og sviðslista voru skoðaðir og í þetta sinn var gjörningalist í sviðsljósinu. Nemendur framkvæmdu gjörninga bæði í kennslustofu sem og utandyra.
Vika 3 – Listin að mistakast
Ragnar Ísleifur Bragason kenndi námskeiðið Listin að mistakast. Á námskeiðinu fá nemendur innsýn í skapandi ferli sem byggir á því að mistök séu ekkert til að hræðast heldur geti þvert á móti verið skapandi og gefandi. Námskeiðið nýtist nemendum í skapandi vinnu og kennir þeim að hræðast ekki mistök heldur nýta þau frekar sem drifkraft.
Í lok námskeiðs voru 4 hópverkefni sem nemendur kynntu í lok vikunnar.
Vika 4 – Dansaðu úr þér augun
Í fjórðu vikunni forfallaðist því miður kennari á síðustu stundu hjá hugmyndabrautinni. Það kom þó ekki að sök þar sem fyrsti dagur vikunnar var nýttur í heimsókn í Fablab á Ísafirði þar sem Doddi forstöðumaður sýndi nemendum rýmið, tæki og tól og allskyns verkefni sem unnin hafa verið í þessari frábæru aðstöðu sem við erum svo heppin að hafa svona nálægt okkur (þó það sé alveg hinum megin við göngin). Fablab hefur áður og mun að öllum líkindum aftur nýtast skólanum vel í hinum ýmsu námskeiðum.
Yelena Arakelow dansari, stökk svo til og var komin til okkar á ögurstundu. Hún tók nemendur á dansnámskeið. Í lok vikunnar héldu nemendur svo dansteiti þar sem gestir voru hvattir til að leysa dansinn úr læðingi eins og enginn væri að horfa.
Vika 5 – Samstarf og viðburðir
Námskeiðið Samstarf og viðburðir markar lok haustannar þessa skólaárs. Á námskeiðinu vinna nemendur af báðum brautum saman að því að halda viðburði, finna jólaandann, njóta samveru og gera upp önnina. Sassa kom aftur til að aðstoða nemendur við skipulagningu viðburða ásamt Söru Jónsdóttur sem býr yfir víðtækri reynslu í viðburðahaldi. Sassa og Sara voru með nemendum fyrstu viku námskeiðsins þar sem þau skipulögðu viðburði seinni vikunnar ásamt því að skipuleggja og halda vel heppnað Paellukvöld á Vagninum. Seinni vikunni stýrir svo enginn annar en fráfarandi kennslustjóri Veigar Ölnir, en hann ætlar að aðstoða nemendur við allt sem þarf til að viðburðir lokavikunnar geti átt sér stað.
Viðburðadagatal jólavikunnar er að finna á facebook síðu skólans!
Meðal viðburða verður jólamarkaður í samkomuhúsinu þar sem nemendur skólans ásamt einstaklingum og fyrirtækjum á svæðinu selja (eða gefa) allskonar sniðugt sem hægt er að nýta í jólagjafir eða matarboð yfir hátíðirnar.
Jólahjálpin er gegnumgangandi “viðburður”, þar sem nemendur bjóða fram aðstoð sína við jólahreingerningar, jólaskreytingar og annað stúss sem íbúar samfélagsins gætu þurft aðstoð við fyrir jólin.
Hið árlega jólasundbíó sem við getum óhrædd kallað hefð sem hefur skapast gegnum árin í Lýðskólanum.
Pubquiz, jólaföndur og fleira!
Sigríður Júlía eða Sigga Júlla eins og hún er gjarnan kölluð, tók við sem kennslustjóri skólans 1.desember s.l.
Sigga Júlla hefur frá aldamótum unnið að umhverfismálum og skógrækt, fyrst sem verkefnastjóri hjá Vesturlandsskógum, síðan sem héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Vesturlandi og Vestfjörðum og framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga og nú síðast sem sviðstjóri hjá Skógræktinni. Þar stýrði hún m.a. ráðgjafaþjónustu stofnunarinnar. Sigga Júlla hefur kennt við Landbúnaðarháskóla Íslands, bæði í bændadeild og á háskólastigi. Hún hefur einnig haldið erindi á fjölmörgum fundum, málþingum og ráðstefnum í gegnum tíðina auk námskeiðahalds á sviði umhverfismála og skógræktar.
Sigga Júlla er með mastersgráðu í skógfræði við norska lífvísindaháskólann að Ási í Noregi (Universitetet for miljø og biovitenskap) og BS gráðu í landnýtingu frá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Sigga Júlla býr í Önundarfirði, er gift og á fullt af börnum, hesta og kött. Hún er virk í félagsmálum, situr í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, er formaður skipulags- og mannvirkjanefndar og forseti bæjarstjórnar.
Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum mikið til að vinna með þessari frábæru viðbót! Í sömu andrá kveðjum við Veigar Ölnir sem hefur staðið vaktina sem kennslustjóri á þessari önn, þökkum honum hjartanlega fyrir vel unnin störf og skemmtilega samveru á önninni og óskum honum alls hins besta í ævintýrum framtíðarinnar.
Nemendagarðar halda áfram að sjálfsögðu áfram að rísa! Húsið verður fokhelt fyrir áramót en klæðningin fer á á næstu dögum og hvetjum við öll til að fylgjast með því á vefmyndavél Snerpu en þar er fullkomið útsýni yfir byggingarreitinn eins og áður hefur komið fram. Til gamans látum við fylgja myndir, af smíðunum, úr vefmyndavél frá fyrstu skóflustungu fram að byrjun desember!
Við erum byrjuð að safna efni fyrir auglýsingaherferð næsta vors (ekki seinna vænna!) og fara að sjálfsögðu okkar yndislegu nemendur þar með aðalhlutverk ásamt Önundafirðinum fegursta. Hér fáið þið, sem lesið þetta fréttabréf, örlítið forskot á komandi sælu! Sýnishorn af hráu efni sem verður að lokum nýtt til að auglýsa skólann fyrir næsta skólaár!
Í lok annar kveðjum við nokkur úr nemendahópnum (með smá kusk í augunum) og hlökkum mikið til að sjá hvernig þau nýta sér allt það sem þau lærðu í Lýðskólanum á þessari viðburðarríku önn.
Eins og við munum sakna fráfarandi nemenda, hlökkum við á sama tíma til að taka á móti og kynnast nýjum nemendum sem hefja sitt lýðskólaævintýri á vorönn komandi árs.
Við höfum opnað fyrir umsóknir og hvetjum við öll þau sem hafa áhuga, að taka stökkið og skrá sig í frábærasta skóla á landinu!
Síðasti skóladagur annarinnar er 9.desember n.k. og verður því þetta fréttabréf það síðasta á þessu ári. Við munum að sjálfsögðu birta myndir og myndbönd úr jólavikunni á samfélagsmiðlum okkar svo þið missið ekki af því!
Við óskum núverandi og fyrrverandi nemendum, kennurum, velunnurum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þökkum við, meyr og með hlýju í hjarta, fyrir árið sem er að líða ❤️
Takk fyrir okkur og heyrumst aftur á árinu 2023!