Fréttabréf – Október 2022

Fréttabréf - Október 2022

Námskeið, kennarar og afrakstur

Útihreysti

Útibrautin byrjaði mánuðinn á Útihreysti með Thelmu Rut. Í áfanganum fengu nemendur fræðslu um heilsu, tengsl líkama og sálar og tileinkuðu sér tól til markmiðasetningar. Í áfanganum fóru nemendur í vettvangsferð til Bolungarvíkur og í Tunguskóg.

Skapandi ljósmyndun

Nemendur á hugmyndabraut byrjuðu mánuðinn á skapandi ljósmyndun með ljósmyndaranum Isley Reust. Í áfanganum lærðu nemendur að nota ljósmyndaformið á skapandi hátt og vinna myndir.

Áfanginn endaði á ljósmyndasýningu í Tankinum sem var opin almenningi.

Kayak og útivist

Kajak og útivist markaði miðjan mánuð hjá útibrautinni en Veiga Grétarsdóttir kenndi námskeiðið fjórða skólaárið í röð ásamt Brendan Jackson sem tók að sér hlutverk aukakennara. Nemendur kynntust mismunandi tegundum kajaka, virkni þeirra og hvernig hægt er að ferðast um á þeim. Farið var yfir ferðaskipulag, áhættur í sjó, sjávarföll og veðurlag. Nemendur kynntust róðratækni, rötun, björgunaraðferðum og leiðavali.

Farið var í leiki og æfingar á sjó og í sundlauginni þar sem nemendur kynntust bátunum betur.

Áfanginn endaði á vettvangsferð inn Önundarfjörðinn þar sem nemendur steiktu pönnukökur og réru svo til baka á Flateyri.

Heimildamyndagerð

Seinni hluti mánaðarins hjá hugmyndabrautinni fór í Heimildamyndagerð með Körnu Sigurðardóttur. Nemendur horfðu á og rýndu í innlendar sem og erlendar heimildamyndir af ýmsu tagi, kynntust hinu fjölbreyttu frásagnastílum heimildamyndagerðar og lærðu að byggja sögu, setja saman handrit og framleiða heimildamynd frá hugmynd í lokaafurð. Einnig var farið í vettvangsferð á Hversdagssafnið á Ísafirði þar sem nemendur fengu að sjá myndir í bíósal safnsins og skoða það sem er til sýnis á safninu.

Áfanganum lauk með bíósýningu í samkomuhúsinu á Flateyri sem var opin almenningi þar sem nemendur sýndu heimildamyndir sem þau höfðu unnið að alla seinni viku áfangans.

Skyndihjálp og björgunarstörf

Síðasta vika mánaðarins hjá útibrautinni var vel nýtt í áfanganum Skyndihjálp og björgunarstörf með Tómasi Eldjárn Vilhjálmssyni. Námið var kennt með fyrirlestrum samhliða verklegri kennslu í formi sýnikennslu og athafnanáms. Nemendur öðluðust grunnþekkingu í skyndihjálp og björgunarstörfum og fóru í björgunaræfingar. Í lok áfangans útskrifuðust nemendur með skyndihjálparréttindi.

Nýjar græjur

Lýðskólinn fékk styrk úr þróunarsjóði Flateyrar til að bæta við búnaðinn sem við notum í skólastarfinu. Búnaðurinn er hins vegar ekki einungis ætlaður nemendum og kennurum, íbúum og öðrum stendur einnig til boða að fá búnaðinn lánaðann.

Virkilega flottur og umhverfisvænn A3 prentari, tvær góðar myndavélar sem henta vel í upptöku og aukahlutir fyrir þær, þar á meðal míkrafónn til að nota með myndavélunum, linsur, þrífætur og töskur.

Búnaðurinn hefur nú þegar komið vel að notum, nemendur á hugmyndabraut notuðu græjurnar bæði í áföngunum skapandi ljósmyndun og heimildarmyndagerð.

Upprisa stúdentagarða heldur áfram

Stúdentagarðar halda áfram að rísa, í mánuðinum var plata, horn og samskeyti steypt á bæði efri og neðri hæð og er nú verið að setja glugga og gera klárt fyrir klæðningu. Við hlökkum til að sjá húsið fokhelt sem gerist vonandi í lok nóvember eða byrjun desember!

Meira um það síðar.

P.s. Eins og kom fram í síðasta fréttabréfi er hægt að fylgjast með framgangi framkvæmda í vefmyndavél snerpu.