Við skólasetningu Lýðskólans á Flateyri í dag tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra um 134 milljóna stofnframlag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til byggingu Nemendagarða á Flateyri. Verður þetta í fyrsta sinn frá árinu 1997 sem íbúðarhúsnæði er byggt á Flateyri. Hönnun húsanna er þegar hafin og verða þau framleidd erlendis og flutt á staðinn með skipi næsta vor. Yrki, arkitektar eru hönnuðir bygginganna.
Um er að ræða 14 stúdíóíbúðir í tveimur samtengdum húsum sem rísa munu við Hafnarstræti og verða hluti af götumynd og ásýnd staðarins. Við hönnun húsanna verður þess gætt að þau falli að staðaranda Flateyrar.
„Metaðsókn sýnir hvað Lýðskólinn var framsækið en nauðsynlegt og þarft verkefni hjá þeim eldhugum sem rifu skólann af stað á sínum tíma“ sagði Ásmundur Einar í ávarpi sínu við skólasetninguna í dag. „Það hefur verið vandamál með húsnæðismál skólans fyrir nemendur. Það er því ánægjulegt að tilkynna hér að gengið hefur verið frá fjármögnun á nemendagörðum fyrir skólann. Ástæðan er sú að við höfum skapað úrræði, tæki og tól fyrir heimafólk til að byggja upp húsnæði á landsbyggðinni. Ég óska ykkur til hamingju.“
„Þetta er gleðidagur, stór áfangi í stuttri sögu skólans og mikil viðurkenning á okkar starfi“ segir Runólfur Ágústsson formaður stjórnar Lýðskólans.“Nú brettum við upp ermar og stefnum að því að þessi hús verði tilbúin við næstu skólasetningu að ári“.
„Aðsókn að skólanum hefur aldrei verið meiri og við þurftum að hafna fleirum en teknir voru inn. Í dag hófu 31 nemandi nám við Lýðskólann í tveimur brautum þar sem önnur leggur áherslu á listir og sköpun en hin útivist, umhverfi og sjálfbærni“ segir Katrín María Gísladóttir, skólastjóri. „Við hlökkum til skólaársins með nýjum hópi nemenda. Bygging nemendagarða gerir okkur kleift að taka inn 40 nemendur á næsta ári eins og við höfum stefnt að allt frá upphafi. Þetta eru gleðifréttir bæði fyrir skólann og Flateyri og skýrt merki um þau miklu samfélagslegu áhrif sem skólinn er að hafa hér“.