Lýðskólar – Framtíð í menntamálum

Lýðskólinn á Flateyri slóst nýlega í hóp stofnana sem hafa í samstarfi við NORDPLUS styrktarprógrammið staðið að því að efla og dreifa þeirri þekkingu sem hefur hlotist af rekstri lýðskóla á norðurlöndunum til áhugasamra í Eystrasaltslöndunum, hugmyndin er að kynna lýðskólahugtakið fyrir öðrum en einnig öðlast frekari þekkingu og nýjar hugmyndir um menntun frá öðrum menntunaraðilum. Okkar liður í samstarfinu var að bjóða gestum frá Eystrasaltslöndum til okkar á Vestfjörðum.

Liður í verkefninu var að bjóða einstaklingum á sviði menntamála frá Litháen og Eistlandi til Flateyrar þar sem þau hlýddu á fyrirlestra um Lýðskólamenntun á Íslandi og sér í lagi á Flateyri.

Þar sem Lýðskólinn gefur sig út fyrir lærdóm í gegnum upplifanir, að prófa hlutina og byggja tengsl við samfélagið, buðum við gestum okkar að upplifa Lýðskólann á eigin skinni og brugðu þau sér í hlutverk nemenda meðan á dvölinni stóð.

Sigríður „Sassa“ Eyþórsdóttir, iðjuþjálfi og kennari við Lýðskólann útbjó þétta dagskrá af upplifunum fyrir hópinn. Má þar nefna þjálfun í frumefli, sjósund, kayakróður, siglingu og fjallgöngur ásamt öðrum sjálfseflandi æfingum.

Gestirnir fengu með þessu að reyna á sig bæði andlega og líkamlega og setja sig í spor nemenda við Lýðskólann á Flateyri.

Hópurinn naut auk þess gestrisni Flateyrar og Önundarfjarðar meðal annars með því að sækja fjölbreytta viðburði á Vagninum og fylgjast með sundköppum í Sæunnarsundinu stíga upp úr hafinu eftir að hafa synt fjörðinn þveran.

Verkefnið var styrkt af NORDPLUS sem styrkir verkefni er snúa að eflingu og samstarfi í menntun norðurlanda og eystrasaltslandanna. Samstarfsaðilar í verkefninu voru á vegum Innovators Valley í Litháen, Vaddo Folk Lýðskólans í Svíþjóð, Omanaolise skólaþróunarmiðstöðvarinnar í Eistlandi, Sodziaus Meistrai Verkmenntaskólans í Litháen og stofnununar félagslegrar samþættingar í Litháen.