Nýr nemendahópur

Lýðskólinn var settur í fimmta sinn með pompi og prakt 10.september síðastliðinn.

29 nýir nemendur lögðu land undir fót á Flateyri og hafa nú komið sér vel fyrir víðsvegar um þorpið. 15 nemendur eru skráðir á námsbrautina „Hugmyndir, heimurinn og þú“ og 14 nemendur á námsbrautina „Hafið, fjöllin og þú“

Við bjóðum nýja nemendur hjartanlega velkomna og hlökkum til að kynnast þeim í vetur!

 

Kennarar og námskeið

Skólaönnin hófst á Frumefli sem Aggi (Agnar Jón Egilsson) kennir, þar fá nemendur á báðum brautum, í gegnum ýmsar samskiptaleiðir, leiki og spuna, að kynnast hvort öðru og sjálfum sér og setja sér leikreglur fyrir samveruna framundan.

Því næst tók Sassa við kennslu, þar héldu nemendur áfram að styrkja samböndin við sig sjálf og hvort annað. Farið var í vel heppnaða vettvangsferð á Laugarhól í Bjarnarfirði á Ströndum – gönguferð upp Bæjarháls, sund og skemmtiatriði að kvöldi mörkuðu ferðina ásamt sýnisferð um Drangsnes þar sem rútubílstjórinn okkar, Sophus ólst upp.

Loks var hópnum skipt upp á sínar brautir og eru með því að ljúka fyrsta mánuði skólaársins.

Útibrautin (Hafið, fjöllin og þú) svokallaða fór þá í fyrri hluta námskeiðsins „Fjallamennska“, sem Bjartur Týr kennir ásamt Kjartani Tindi aðstoðarkennara. Þar fengu nemendur kennslu í öllum grunnatriðum fjallamennsku á Íslandi. Nemendur fóru m.a. í gönguferð upp á Þorfinn sem er fjall sem liggur gegnt Flateyri við suðurströnd Önundarfjarðar, gengu snjóflóða-varnargarðinn á Flateyri og sigu fram af Arnarneshamri sem liggur á veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur – skemmtilegt er að segja frá því að í gegnum Arnarneshamar liggja elstu jarðgöng á landinu (1948) sem eru um 30 metra löng. 

Þorfinnur, drone, Flateyri

Nemendur á útibraut fara svo aftur í Fjallamennsku á vorönn þar sem þau efla og dýpka enn frekar hæfni og kunnáttu, meira um það síðar.

Nemendur á hugmyndabraut (Hugmyndir, heimurinn og þú) fóru í námskeiðið „Skapandi hugsun” sem Jón Helgi kennir. Farið var yfir ýmsar skapandi aðferðir með áherslu á ólíka miðlun, samtöl og kynningar. Markmið námskeiðsins er að nemendur tileinki sér gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð í skapandi vinnu.

Framkvæmdir á nýjum nemendagörðum ganga vel

Í byrjun sumars hófust framkvæmdir á nýjum nemendagörðum og ganga þær framkvæmdir ljómandi vel. Við út­skrift frá skól­an­um sl. vor tóku íbú­ar á staðnum og nem­end­ur fyrstu skóflu­stung­urn­ar að bygg­ing­unni, þar sem verða fjór­tán stúd­íó­í­búðir.

Þetta verður fyrsta íbúðar­húsið sem byggt er á Flat­eyri síðan 1997 og erum við starfsfólk og stjórn skólans rífandi stolt af því og þeirri jákvæðu uppbyggingu þorpsins og samfélagsins sem skólinn hefur tekið þátt í og við hlökkum til og stefnum áfram á að efla þorpið og samfélagið, sem okkur þykir svo vænt um, enn frekar.

Nemendagarðar, framkvæmdir, vefmyndavél

Hægt er að fylgjst með framkvæmdum hér: https://www.snerpa.is/allt_hitt/vefmyndavelar/Flateyri/

Nýtt starfsfólk

Tveir nýir starfsmenn hófu störf við Lýðskólann í byrjun skólaárs. Margeir, verkefnastjóri við skólann og Veigar sem sinnir störfum kennslustjóra tímabundið þar til nýr kennslustjóri tekur við í desember n.k. Kynnum við þá hér og í sömu andrá bjóðum við þá velkomna til starfa!

Margeir Haraldsson Arndal

Verkefnastjóri

Margeir var nemandi á fyrsta skólaári Lýðskólans og féll fyrir samfélaginu og umhverfinu á Flateyri. Árið 2020 fjárfesti hann ásamt kærustu sinni, sem hann kynntist í Lýðskólanum, í heimili á Flateyri og búa þau nú þar ásamt dóttur sinni sem er að byrja á leikskólanum Grænagarði á Flateyri.

Veigar Ölnir Gunnarsson

Kennslustjóri

Veigar er myndlistarmaður og klifrari uppalinn í Reykjavík. Hann hefur komið víða við á síðastliðnum árum, unnið sem sýninga og verkefnastjóri í Norræna húsinu, tæknimaður í gallerýi í Hollandi og kennt myndlistarnámskeið í Lunga skólanum Seyðisfirði. Veigar mun sinna starfi kennslustjóra og búa á Flateyri fram í desember á þessu ári.

Við þökkum fyrir frábæra byrjun og hlökkum til að segja ykkur frá skólastarfinu í vetur!